Orðsporið 2016

Á Degi leikskólans síðastliðin þrjú ár hefur viðurkenningin Orðsporið verið veitt þeim sem þótt hafa skarað fram úr í að efla orðspor leikskólastarfs í landinu og unnið ötullega í þágu leikskóla og/eða leikskólabarna.

  • Árið 2013 var Orðsporið veitt Súðavíkurhreppi fyrir að bjóða 6 klst. gjaldfrjálsa tíma á dag fyrir öll börn á leikskólaaldri, Kristínu Dýrfjörð og Margréti Pálu Ólafsdóttur fyrir að vekja opinbera umræðu um málefni leikskólans á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.
  • Árið 2014 fengu aðstandendur þróunarverkefnisins „Okkar mál“ Orðsporið en markmið verkefnisins er að auka samstarf skóla í Fellahverfi og stofnana í Breiðholti með það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu undir forystu leikskólanna.
  • Árið 2015 hlutu Kópavogsbær og Sveitarfélagagið Ölfus Orðsporið fyrir aðgerðir við að hækka menntunarstig starfsmanna leikskóla og/eða fjölga leikskólakennurum í sínum leikskóla/leikskólum.

Ákveðið hefur verið að Orðsporið 2016 verði veitt þeim  sem þykir hafa skarað fram úr við að fjölga karlmönnum í hópi leikskólakennara (s.s. einstaklingi, leikskóla, rekstraraðila/sveitarfélagi, stofnun). Opnað hefur verið fyrir tilnefningar vegna Orðsporsins 2016 á heimasíðu Kennarasambands Íslands , og skulu tilnefningar berast eigi síðar en 18. janúar nk.

Valnefnd verður skipuð fulltrúum samstarfsaðila um Dag leikskólans. Niðurstöður valnefndar byggjast á greinargerðum og rökstuðningi. Í tilnefningunni þarf að koma fram hvað sá er tilnefndur er hefur gert til að fjölga karlmönnum í hópi leikskólakennara. Í tilnefningunni þarf einnig að koma fram mat á árangri og rökstuðningur fyrir því af hverju viðkomandi á skilið að hljóta Orðsporið 2016. Ekki er tekið á móti viðbótargögnum og því verða allar upplýsingar að koma fram í tilnefningunni.