Niðurstaða endurmatsins kynnt á fundi 16. desember 2015

Allt frá því að þjónusta við fatlað fólk fluttist frá ríki til sveitarfélaga í upphafi árs 2011 hefur sambandið staðið fyrir reglulegum fundum til þess að miðla upplýsingum um stöðu verkefnisins og fá fram umræðu um framvindu þess. Þessir fundir hafa jafnan verið haldnir í samstarfi við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga.

Sjötti fundurinn af þessi tagi var haldinn 16. desember sl. þar sem kynnt var niðurstaða endurmats á verkefnaflutningnum. Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, sagði frá fjárhagshlið endurmatsins og því samkomulagi sem náðist milli ríkis og sveitarfélaga um framtíðarfjármögnun málaflokksins. Samkomulagið tryggir sveitarfélögum viðbótarfjármagn inn í árlegan rekstur til þess að mæta þeirri þróun sem orðið hefur með fjölgun notenda og hærra þjónustustigi í þeirri lögbundnu þjónustu sem færðist yfir frá ríki til sveitarfélaga. Þá er einnig gert ráð fyrir fjármagni til uppbyggingar nýrra úrræða og starfsstöðva fyrir þjónustu. Viðbótarfjármagnið mun að líkindum nema allt að 1,5 milljarði króna á árinu 2016.

Karl nefndi einnig önnur atriði í fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga vegna málaflokksins sem ekki hefðu verið leyst með endurmatinu og verða því áfram til umfjöllunar. Er þar aðallega um að ræða þjónustu við fatlað fólk sem ekki er lögbundin en sveitarfélögin sinna þrátt fyrir það að verulegu leyti. Á fundinum var fjallað sérstaklega um þessa þjónustuþætti með innleggjum frá stjórnendum í málaflokknum.

Þættir í þjónustu við fatlað fólk sem áfram verða til umfjöllunar:

  • Reynsluverkefni um NPA
  • Börn með alvarlegar raskanir
  • Lengd viðvera fatlaðra skólabarna
  • Öryggisvistun
  • Grá svæði milli þjónustukerfa
  • Íbúar í rýmum innan heilbrigðiskerfisins

Þá fjallaði Gyða Hjartardóttir, sérfræðingur sambandsins í málefnum félagsþjónustunnar, um faglegar niðurstöður endurmatsins og Tryggvi Þórhallsson, lögfræðingur á lögfræði- og velferðarsviði sambandsins, greindi frá þeirri niðurstöðu sem náðst hefði um uppbyggingu húsnæðisúrræða og þróun búsetuþjónustu.

Allmikil umræða varð á fundinum um fyrirkomulag jöfnunar í málaflokknum. Guðný Sverrisdóttir, formaður ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðs, hafði framsögu um það efni og greindi frá tillögum um breytingar á regluverki jöfnunarsjóðs vegna komandi árs.

Fundinum var streymt og nýttu margir sér tækifærið til þess að fylgjast með umræðunni á vefnum. Upptaka af fundinum og glærur eru aðgengilegar á vef sambandsins.

Fleiri tímamóta var minnst á fundinum. Elín Pálsdóttir forstöðukona Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga lætur af störfum í upphafi næsta árs eftir 26 ára starf og færði Karl Björnsson henni blómvönd frá starfsfólki sambandsins með þökkum fyrir afburðagóð samskipti. Aðrir þátttakendur í fundinum tóku undir undir orð Karls og óskuðu Elínu allra heilla.