Hlutverk sveitarfélaga í loftslagsmálum undirstrikað í París

Evrópsk og alþjóðleg samtök sveitarfélaga og borga tóku höndum saman og funduðu í París í tengslum við stóru loftslagsráðstefnuna COP21 til að leggja áherslu á vilja og getu þeirra til aðgerða í loftslagsmálum. Hápunkturinn var fundur 640 borgarstjóra og leiðtoga sveitarfélaga í ráðhúsinu í París 4. desember sl. undir stjórn borgarstjórans í París Anne Hidalgo og Michael Bloomberg fyrrverandi borgarstjóra í New York og núverandi borga- og loftslagserindreka Sameinuðu þjóðanna.

Stefnumótandi nefnd Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, fundaði í París á sama tíma og fulltrúar sambandsins í henni tóku þátt í leiðtogafundinum, þau Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði, Eiríkur Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Halla Sigríður Steinólfsdóttir fulltrúi í sveitarstjórn Dalabyggðar og varaformaður sambandsins. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Björn Blöndal forseti borgarstjórnar tóku einnig þátt í fundinum

Fundurinn sendi frá sér ályktun þar sem leiðtogarnir skuldbinda sig til að móta róttæka stefnu og aðgerðaráætlanir fyrir 2020 til að bregðast við hamförum vegna loftslagsbreytinga og til að vera búin að minnka kolefnisútblástur í borgum um 3,7 gígatonn árlega 2030.

Í ályktuninni er kallað eftir samstilltum aðgerðum, auknum stuðningi og samstarfi allra geira og stjórnvaldsstiga Loftslagsbreytingar séu sameiginleg áskorun og það beri allir ábyrgð á að bregðast við þeim. Markviss viðbrögð á alþjóðavísu séu eitt stærsta efnahagstækifærið á 21. öld.  Ályktunina í heild sinni má finna hér.

Í þessu samband er einnig tilefni til að segja frá því á að EES EFTA sveitarstjórnarvettvangurinn ályktaði um loftslagsmál vegna COP21 á 12. fundi sínum í Brussel, 16.-17. nóvember sl.

Það er gleðilegt að þessi þrýsingur virðist hafa haft áhrif því að í samningnum sem náðist í lok COP21 er í fyrsta sinn formlega viðurkennt að öll stjórnvaldsstig þurfi að vera þátttakendur í loftslagsaðgerðum. Þetta er mikilvægur sigur fyrir sveitarstjórnarstigið og stuðlar að því  að sveitarfélög verði beinir þátttakendur í áætlunum og stuðningsaðgerðum þjóðríkja og Sameinuðu þjóðanna.