Hryðjuverkavá og málefni flóttamanna til umfjöllunar á fundi Stefnumótandi nefndar Evrópusamtaka sveitarfélaga

Á sama tíma og loftslagsráð-stefnan, COP21, stóð yfir í París fundaði stefnumótandi nefnd, „Policy Committee“, Evrópusamtaka sveitarfélaga, CEMR, í ráðhúsi Parísarborgar. Nefndin fer með yfirstjórn samtakanna og kemur saman tvisvar á ári. Aldís Hafsteinsdóttir bæjarstjóri í Hveragerði, Eiríkur Björgvinsson bæjarstjóri á Akureyri og Halla Sigríður Steinólfsdóttir fulltrúi í sveitarstjórn Dalabyggðar og varaformaður sambandsins eru fulltrúar sambandsins í nefndinni og tóku þátt fundinum, ásamt Önnu G. Björnsdóttur sviðsstjóra og Guðrúnu Dögg Guðmundsdóttur forstöðumanni Brusselskrifstofu sambandsins. Óhjákvæmilega settu þessir tveir stóru Parísaratburðir, loftslagsráðstefnan og hryðjuverkaárásirnar í nóvember, svip sinn á fundinn og fundurinn samþykkti ályktanir um hvort tveggja.

Í upphafi fundar minntust fundarmenn fórnarlamba hryðjuverkanna í París með mínútuþögn. Minnt var á að hryðjuverk hafa átt sér stað á fleiri stöðum nýlega og hryðjuverkaváin vofir yfir flestum löndum. Fulltrúar Tyrklands lögðu áherslu á að hryðjuverkin séu afskræming á Íslamstrú, og formaður franska sveitarfélagasambandsins Alain Juppé borgarstjóri Bordeaux áréttaði að árásin hafi ekki aðeins verið beint gegn Frökkum heldur að hinu lýðræðislega fjölmenningarsamfélagi þar sem fórnarlömbin voru af tæplega fimmtíu þjóðernum. Borgarstjóri Brusselborgar sagði frá þeirri stöðu sem upp kom í borginni í kjölfar hryðjuverkaárásanna í París. Hann sagðist hafa rætt við fjölskyldur ódæðismannanna sem væru í áfalli og skildu ekki hvernig venjulegir ungir menn hefðu geta breyst í öfgafulla ofbeldismenn á stuttum tíma. Í ályktun fundarins er skorað á ríkisstjórnir að styðja sveitarfélög og borgir í aðgerðum til að tryggja örugga og friðsamlega sambúð allra íbúa sveitarfélaga og borga. Rætt var um að evrópsk sveitarfélög eigi stór úrlausnarefni fyrir höndum við að skipuleggja fyrirbyggjandi aðgerðir til að koma í veg fyrir að öfgaskoðanir nái að festa rætur í borgum og sveitarfélögum.

Flóttamannamálin er annað stóra málið sem sveitarfélög í Evrópu takast á við þessa dagana, þó á misjafnan hátt og af mismiklum þunga. Sveitarfélög á jaðarsvæðum í Suður og Austur Evrópu þurfa stuðning til að veita flóttamönnum á fyrstu viðkomustöðum þeirra í Evrópu neyðaraðstoð og sveitar-félög í flestum löndum lýsa eftir stuðningi til að geta sinnt þörfum flóttamanna sem nýrra íbúa. Á fundinum fór töluverður tími í umfjöllun um tillögu að ályktun um nauðsynlegar aðgerðir til að bregðast við flóttamannasstrauminum til Evrópu. Í henni er m.a. lýst yfir stuðningi við aðgerðir til að jafna fjölda flóttamanna á milli landa og við endurskoðun Dyflinnarreglugerðarinnar, jafnframt því sem áréttað er að sveitarfélög þurfi meiri stuðning til að takast á við flóttamannamálin.

Fulltrúar Þýskalands og Hollands lögðu fram nokkrar breytingatillögur, fyrst og fremst til að kveða nákvæmar á um skráningu flóttamanna á svokölluðum „hotspots“  sem þurfi að byggja upp sem fyrstu móttökustaði þegar flóttamenn koma til Evrópu,  um stöðu flótta-manna frá svokölluðum öruggum löndum og aðgerðir til að verja ystu mörk Evrópu og Schengen samstarfið. Í breytingatillögunum er skorað á aðildarríki ESB að ná samstöðu um lista yfir örugg lönd og að hælisleitendur frá þeim löndum  fari í gegnum hælismeðferð á „hotspots“ sem þeir komi fyrst til í Evrópu. Einnig er vikið að því að hraða þurfi málsmeðferð hælisleitenda frá öruggum löndum og að fara þurfi í auglýsingaherferðir í þessum löndum til að gera fólki grein fyrir takmörkuðum möguleikum á því að fá hæli í ESB. Ályktunin var samþykkt með breytingatillögunum en þó nokkrir fulltrúar frá svæðum sem hafa borið hitann og þungann af flóttamannastraumnum, s.s. Grikklandi og Tyrklandi, sátu hjá við afgreiðslu ályktunarinnar þar sem þeir töldu sig ekki hafa haft nægilegt færi á að skoða breytingatillögurnar og fulltrúi Póllands taldi ekki nægt tillit tekið til þess hvernig Pólland er að aðstoða flóttamenn frá Úkraínu. Lögð var áhersla á að flóttamannamálin breytast hratt og að setja þurfi málið aftur á dagskrá næsta fundar nefndarinnar í apríl nk. á Kýpur í tengslum við Allsherjarþing sambandsins sem haldið er fjórða hvert ár. Fjallað var um dagskrá þess þings á fundinum og um venjubundin mál eins og fjárhags- og starfsáætlun næsta árs. Auk þess var gengið formlega frá samþykkt ályktana um mikilvæg hagsmunamál sveitarfélaga, s.s. um stefnu ESB um bætta reglusetningu, en í ályktun um hana er lögð áhersla á mikilvægi aðkomu sveitarfélaga að löggjafarundirbúningi ESB og að innleitt verði mat á svæðisbundnum áhrifum löggjafar. Einnig var samþykkt ályktun vegna COP21, um hringrásarhagkerfið, og um þéttbýlisstefnumótun ESB, „Urban Agenda“.

Nánar um fundinn og ályktanir hans.