Grátt svæði #9

Í lögum um almannatryggingar er kveðið á um að þeir sem flytjast hingað til lands þurfi að geta sýnt fram á þeir hafi - eða geti - náð 40 ára búsetu hérlendis á aldrinum 16 - 67 ára vilji þeir öðlast fullan rétt til lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins (TR). Þeir sem ekki ná 40 ára búsetu á þessu rúmlega 50 ára aldursskeiði öðlast rétt til elli- og örorkulífeyris í hlutfalli við búsetu.

Af þessum reglum leiðir að einstaklingur sem flyst hingað til lands eftir 67 ára aldur öðlast engan rétt til ellilífeyris frá TR. Einstaklingur sem hingað flyst 57 ára að aldri nær hins vegar með búsetu til frambúðar að vinna sér inn rétt til 25% ellilífeyris. Hliðstæðar reglur gilda um öryrkja sem flytjast á milli landa og sækja um örorkulífeyri frá TR.

Frá árinu 2008 hefur fjölgað mjög í hópi eldri borgara og öryrkja sem fá hlutagreiðslur frá TR á grundvelli þessara reglna. Samkvæmt fyrirliggjandi tölum má sjá að öryrkjum, búsettum hér á landi, sem fá þær hlutagreiðslur fjölgaði úr 402 í 785 frá árinu 2009 til nóvember 2015.  Fjölgunin nemur um 95%. Ellilífeyrisþegar sem fá hlutagreiðslur hefur einnig fjölgað og voru þeir 675 talsins í nóvember sl. Alls eru þetta 1.460 manns og eru þá ótaldir eldri borgarar sem hingað koma en sækja ekki um ellilífeyri hjá TR þar sem fyrir liggur að þeir eigi þar engan rétt.

Umræddar hlutagreiðslur eru rökstuddar með því að þeir sem búsettir hafi verið erlendis geti sótt hlutfallslegar bætur (vegna örorku eða elli) til fyrra búsetulands. Fyrir liggur á hinn bóginn að flestir í þessum hópi segjast aðspurðir ekki fá neinar bætur frá fyrra búsetulandi.

Í allmörgum tilvikum sækja einstaklingar úr þessum hópi um fjárhagsaðstoð frá lögheimilissveitar-félagi sínu, til þess að bæta upp að lífeyrisgreiðslur eru skertar eða hreinlega ekki fyrir hendi. Til þess að varpa ljósi á umfang þessara tilvika framkvæmdi hag- og upplýsingasvið sambandsins könnun sem send var út á sveitarfélögin þann 17. september 2015. Þegar lokað var fyrir svör þann 1. nóvember 2015 höfðu svör borist frá 47 sveitarfélögum þar sem 92% landsmanna búa. Svörin miða við apríl 2015 en alls fékk þá 3.081 einstaklingur fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélögunum 47. Af þessum fjölda voru rúmlega 62% viðtakenda í Reykjavík.

Í heildina fengu 98 einstaklingar, eða rúmlega 3%, fjárhagsaðstoð sökum þess að greiðslur frá TR voru skertar vegna búsetu erlendis. Af þeim voru 13 með íslenskan uppruna, 84 með erlendan uppruna og einn sem var flokkaður annað.

  • Í heild    98
  • Þar af með íslenskan uppruna    13
  • Þar af með erlendan uppruna    84
  • Annað (blandaðar fjölskyldur)    1


Sambandið telur ljóst að í þessum tilvikum sé fjárhagsaðstoð ekki tímabundið úrræði heldur sé  greiðslum frá sveitarfélaginu ætlað að standa undir framfærslu viðkomandi allar götur meðan hann býr hér á landi. Jafnframt hefur sambandið reynt að grennslast fyrir um ástæður þess að búsetuskerðingum hefur fjölgað jafnmikið á undanförnum árum og raun ber vitni, sbr. að örorkulífeyrir sé nú skertur í tæplega tvöfalt fleiri tilvikum en var árið 2009. Skýringar hafa enn ekki fengist en sambandið telur að á meðan þróunin sé með þeim hætti verði að telja að þessi hópur viðtakenda fjárhagsaðstoðar sé á gráu svæði milli ríkis og sveitarfélaga.

Tekið skal fram að þetta gráa svæði nær ekki til flóttamanna sem koma hingað til lands. Kvótaflóttamenn eru tryggðir að fullu í almannatryggingakerfinu frá komudegi og í útlendingalögum er gert ráð fyrir því að þegar um er að ræða flóttamann sem fengið hefur hæli, megi víkja frá ákvæðum laga um að lágmarksbúsetutími sé skilyrði fyrir réttindum í félagslega tryggingakerfinu.