Velkomin

- úrræði fyrir móttöku og samskipti

Velkomin – úrræði fyrir móttöku og samskipti er samskiptatæki til að auðvelda skólum móttöku, aðlögun og samskipti við nemendur með annað móðurmál en íslensku og foreldra þeirra. Fyrirmynd að verkefninu er byggð á Little Learners vef Brians Huxley og hefur rík áhersla verið lögð á að gera efnið aðgengilegt í margvíslegum snjalltækjum.

Verkefnið er nú opið á vefnum www.tungumalatorg.is/velkomin og þar geta kennarar, nemendur, foreldrar, skólafélagar og í raun hver sem er átt samskipti við þá sem ekki hafa náð valdi á íslenskri tungu og notað til þess tölvu eða snjalltæki. Á vefnum hafa verið settar upp sviðsmyndir, s.s. „Samtal kennara og foreldra“, „Hrós“, „Betri vinnubrögð“ og „Samskipti nemenda“. Þessar sviðsmyndir eru settar fram á fimm tungumálum: arabísku, ensku, litháísku, pólsku og spænsku.

Aukaafurð af verkefninu eru 12 gátlistar sem unnir voru upp úr könnunin á upplifun fagfólks á stöðu nemenda með íslensku sem annað tungumál í grunnskólum á Íslandi árið 2009. Gátlistana má nota til að meta hvernig skólinn stendur sig í skipulagningu á móttöku, námi og kennslu nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál og einnig aðlögun þeirra og hinna sem fyrir eru að breyttu skólasamfélagi.