Breytingar á lögum um vatnsveitur

Innanríkisráðuneytið kynnir nú til umsagnar drög að lagafrumvarpi um breytingar á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, nr. 32/2004. Unnt er að koma umsögnum um frumvarpsdrögin á netfangið postur@irr.is til og með 30. janúar næstkomandi.

Meginmarkmið frumvarpsins er að skýra og treysta grundvöll þeirrar álagningar vatnsgjalds sem þegar fer fram á vegum vatnsveitna sveitarfélaga fyrir þá almannaþjónustu sem þær veita. Sú þjónusta felst fyrst og fremst í þeim aðgangi að neysluvatni sem eigendur fasteigna á veitusvæðum eiga kost á með tengingu við veiturnar, óháð því hvernig einstakir fasteignaeigendur haga þeirri nýtingu innan sinnar fasteignar. Þá er það einnig mikið öryggismál fyrir alla fasteignaeigendur að eiga tryggan aðgang að vatni til slökkvistarfs, óháð vatnsnýtingu þeirra að öðru leyti. Það er hins vegar ekki tilgangur frumvarpsins að útvíkka eða auka gjaldtökuna frá því sem verið hefur.

Frumvarpsdrögin eru samin í innanríkisráðuneytinu í samstarfi við umhverfis- og auðlindaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorku og Orkuveitu Reykjavíkur. Samhliða hefur verið unnið að drögum að frumvarpi til sambærilegra breytinga á lögum um uppbyggingu og rekstur fráveitna nr. 9/2009.