Námskeið fyrir skólanefndir

Í undirbúningi eru námskeið fyrir skólanefndir sveitarfélaga. Nú þegar liggur fyrir að námskeið verða haldin á Reykhólum föstudaginn 13. febrúar, í Fræðslumiðstöð Vestfjarða á Ísafirði, laugardaginn 14. febrúar og í Austurbrú á  Egilsstöðum 21. febrúar með möguleika á fjarfundi frá Ísafirði og Egilsstöðum. Dagsetningar námskeiða fyrir aðra landshluta verða birtar þegar þær liggja fyrir. Námskeiðið er ætlað skólanefndum leik- og grunnskóla, ásamt áheyrnarfulltrúum foreldra, kennara og skólastjóra. Starfsmönnum skólaþjónustu sveitarfélaga og framkvæmdastjórum sveitarfélaga er einnig velkomið að sitja námskeiðin.

Á námskeiðinum verður fjallað um skyldur og ábyrgð skólanefnda. Leitað verður svara við spurningum eins og:

Hverjar eru áherslur Hvítbókar mennta- og menningarmála-ráðherra og hvaða áhrif gætu þær haft á skólastarf og starf skólanefnda?

Hvaða áhrif geta kjarasamningar kennara haft til breytinga á skólastarfi og stjórnsýslu skóla verði nýtt vinnumat samþykkt?

Markmið námskeiðsins er að þátttakendur öðlist þekkingu á hlutverki sínu sem fulltrúi í skólanefnd og þeim verkefnum og skyldum sem tilheyra því ábyrgðarsviði.

Kennarar á námskeiðinunum eru Gunnar Gíslason, fræðslustjóri á Akureyri, og Trausti Þorsteinsson, dósent við Háskólann á Akureyri. Á námskeiðsstað verður boðið upp á kaffi og mat.

Þátttökugjald er 15.000 krónur.