Innleiðing á samningi SÞ um réttindi fatlaðs fólks

Eins og kunnugt er vinna íslensk stjórnvöld nú að innleiðingu á Samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Um er að ræða víðtækt verkefni sem snertir sveitarfélögin með ýmsum hætti, bæði við ákvarðanatöku og framkvæmd þjónustu. Hefur ágætt samráð verið milli sambandsins og hlutaðeigandi ráðuneyta, einkum innanríkisráðuneytisins, um skref sem stigin hafa verið eða undirbúin í innleiðingarferlinu. Meðal annars liggur nú frumvarp fyrir Alþingi þar sem hugtakanotkun í lögum er færð til þess horfs sem samningur SÞ gerir ráð fyrir.

Sérfræðingar sambandsins hafa rýnt í efni samningsins og telja að hann samrýmist vel þeirri áherslu sem íslensk sveitarfélög hafa lengi lagt á öfluga nærþjónustu sem svari þörfum notenda. Sýn samningsins á heildstæða, einstaklingsbundna réttinda nálgun hefur mikinn hljómgrunn í því markmiði að samþætta beri þjónustuna og að mat á þörf fyrir aðstoð eigi fyrst og fremst að stýra því hvaða úrræði eru veitt.

Samningurinn leggur einnig mikla áherslu á aðgengismál og aukið val notenda milli úrræða. Að mati sérfræðinga sambandsins mun sú áhersla kalla á aukin fjárframlög til framtíðar litið. Innleiðing samningsins hefur þó ekki sjálfkrafa kostnaðaráhrif að þessu leyti, en breytt viðhorf og auknar væntingar munu í auknum mæli stýra forgangsröðun verkefna þegar kemur að áætlanagerð og eftirfylgni með aðgerðum, sbr. framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem félags- og húsnæðismálaráðherra hefur ákveðið að verði framlengd til ársins 2016.