Nýsköpunarverðlaun 2015 í opinberri þjónustu og stjórnsýslu

Verðlaunin verða veitt í fjórða sinn á ráðstefnu, sem haldin verður á Grand Hóteli, Reykjavík, 23. janúar nk.  Markmið verðlaunaveitingar er að vekja athygli á því sem vel er gert og hvetja til nýsköpunar meðal sveitarfélaga og ríkisstofnana. Fjármála- og efnahagsráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga, Stofnun stjórnsýslufræða og stjórnmála við Háskóla Íslands, Rannís, Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Félag forstöðumanna ríkisstofnana standa að verkefninu.  

Í ár voru tilnefnd 48 verkefni. Þar af eru 32 frá sveitarfélögum.  Sveitarfélögin eru bæði lítil og stór en Reykjavíkurborg er með flest verkefni. Verkefnin eru mjög fjölbreytt, t.d. byggðaverkefni, upplýsingatækniverkefni, lýðræðis- og æskulýðsverkefni og verkefni á sviði skólamála og félagsþjónustu.  Upplýsingar um öll þau nýsköpunarverkefni sem tilefnd hafa verið undanfarin ár er að finna á www.nyskopunarvefur.is.  Í fyrra var farin sú leið að láta þá sem komumst í undanúrslit gera myndbönd um verkefni sín. Ótrúlega fín myndbönd urðu til og eru þau aðgengileg á nýsköpunarvefnum. Þetta verður endurtekið núna og myndböndin frumsýnd á ráðstefnunni. Þar verða líka fluttar áhugaverðar framsögur um nýsköpun hjá hinu opinbera. Aðalfyrirlesari er danskur,  Nikolaj Lubanski, sem fjalla mun um þróun nýsköpunarmála í opinbera geiranum á Norðurlöndum og aðferðir sem geta hjálpað starfsfólki hins opinbera til að styðja við nýsköpun.  Nikolaj hefur á síðustu tveimur áratugum unnið með stjórnendum að þróunarmálum innan opinbera geirans. Hann var áður forstöðumaður danska stjórnsýsluskólans en starfar nú sem ráðgjafi.   Nánari upplýsingar og skráning á nýsköpunarvefnum.