Hin mörgu andlit lýðræðis

Út er komin bókin Hin mörgu andlit lýðræðis – þátttaka og vald á sveitarstjórnarstiginu eftir dr. Gunnar Helga Kristinsson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Í formála bókarinnar segir höfundur m.a.:

Meginviðfangsefni hennar er lýðræðiskerfi sveitarfélaganna á Íslandi og hvernig íbúar þeirra taka ákvarðanir í sameiningu, jafnvel þótt skoðanaágreiningur ríki og hagsmunir stangist á. Hún snýst um útfærslu sveitarfélaganna á lýðræði, þátttökukerfi þeirra og valdakerfi. Lýðræði hefur eftirsóknarverða eiginleika sem geta aukið líkurnar á farsæll stjórn samfélaga ef það er vel og skynsamlega útfært. En lýðræði er ekki samkvæmt skilgreiningu það sama og farsæl stjórn. Hvaða áhrif mismunandi útfærslur af lýðræði hafa á góða stjórnarhætti er reynsluspurning. Sums staðar í heiminum eru lýðræðislegir stjórnarhættir tengdir víðtækri spillingu og óstjórn sem ógnar velferð og öryggi fjölda fólks. Til að meta kosti og galla mismunandi lýðræðislausna þarf því rannsóknir.


Bókin byggir á rannsóknarverkefni sem unnið var við Háskóla Íslands á árunum 2008–2012. Í tengslum við það var safnað gögnum um íbúaþátttöku og skipulagsmál í 22 stærstu sveitarfélögum landsins. Auk úrvinnslu á þeim gögnum byggist rannsóknin á 66 hálfstöðluðum viðtölum við íbúa, sveitarstjórnarfólk og starfsfólk sveitarfélaga sem voru greind með bæði megindlegum og eigindlegum hætti. Þá var framkvæmd íbúakönnun meðal sveitarstjórnarfólks í sveitarfélögunum 22 og hliðstæð könnun hjá 30 manna úrtaki í hverju þeirra fyrir sig. Samband íslenskra sveitarfélaga var einn af styrktaraðilum verkefnisins.

Í bókinni Hin mörgu andlit lýðræðis er valdakerfi sveitarfélaganna athugað og kannað hvort hagsmunir almennings víki fyrir kröfum áhrifamikilla þrýstihópa. Róttækar þátttökukenningar eru jafnframt ígrundaðar með hliðsjón af því hvort stórbæta megi lýðræðið á sveitarstjórnarstiginu með víðfeðmri þátttöku almennings.

Niðurstaða höfundar er sú, að veikleikar í valdakerfi margra sveitarfélaga kalli á breytingar en umbætur í anda íbúalýðræðis mæti ekki nema að takmörkuðu leyti þeirri þörf sem er á umbótum í stjórnmálum, stefnumótun og stjórnsýslu sveitarfélaga.

Bókin er 203 blaðsíður að stærð og gefin út af Háskólaútgáfunni. Bókin fæst í bókaverslunum.