Fjárhagur 1. hluti

Hag- og upplýsingasvið mun taka saman nokkra punkta um atriði sem tengjast fjármálum sveitarfélaga í næstu tölublöðum Tíðinda. Það er gert með það fyrir augum að hvetja til umræðu um fjármálastjórn sveitarfélaga, vera uppspretta nýrra hugmynda og stuðla að framþróun á þessu mikilvæga verksviði sveitarfélaganna.

Markviss fjármálastjórn

Markviss fjármálastjórn er lykilatriði við að gera sveitarfélögum fært að sinna lögbundnum verkefnum sínum á tilskilinn hátt. Til að svo megi vera verða allir hlutaðeigandi að vera virkir í umræðunni, bæði kjörnir fulltrúar sem og viðkomandi embættismenn. Við síðustu sveitarstjórnarkosningar var endurnýjun fulltrúa í sveitarstjórnum um 55%. Það eru því fjölmargir sveitarstjórnarfulltrúar sem hafa verið að vinna að sinni fyrstu fjárhagsáætlun á síðustu mánuðum. Með hliðsjón af því er ekki úr vegi að draga saman nokkrar spurningar sem geta verið til ábendingar þegar sveitarstjórnarfólk veltir fyrir sér hvernig fjármálastjórn sveitarfélagsins er og hve vel það þekkir til hennar.
1.    Eru fjármál sveitarfélagsins í jafnvægi?

 1. Hvernig hefur veltufé frá rekstri þróast á liðnum árum? (Veltufé frá rekstri á að standa undir afborgunum lána, fjárfestingum og sparnaði).
 2. Hvert er skuldahlutfall sveitarfélagsins?

2.    Hvernig er efnahagsleg staða?

 1. Skuldir á íbúa.
 2. Lausafjárhlutfall.
 3. Vaxtagreiðslur og afskriftir.
 4. Þörf fyrir nýfjárfestingar á komandi árum.

3.    Hverjar eru líkur á lausafjárvandræðum á komandi árum?

 1. Breytingar í íbúasamsetningu?
 2. Breytingar í tekjustofnum?
 3. Miklar fjárfestingar?
 4. Miklar afborganir lána?

4.    Hvernig hefur fjármálastjórn verið á undanförnum árum?

 1. Hvernig hefur fjárhagsáætlun staðist á síðustu fjórum árum?
 2. Hefur komið upp óvæntur rekstrarhalli?
 3. Er erfiðara að halda fjárhagsáætlun í sumum málaflokkum frekar en öðrum?

5.    Er fjármálastjórnunin skynsamleg?

 1. Stenst fjárhagsáætlun vegna þess að ákveðin þjónusta er ekki innt af hendi en sem er til staðar hjá hliðstæðum sveitarfélögum?
 2. Stenst fjárhagsáætlun vegna skipulegs eftirlits og markvissra viðbragða ef nauðsyn krefur?
 3. Eru óþarfa útgjöld til staðar og ef svo er hvar þá?
 4. Er samhengi milli útgjalda, starfsemi og gæða þjónustunnar?
 5. Eru viðaukar afgreiddir?

6.    Er fjármálastjórnin trúverðug?

 1. Hverjar eru lykilreglur í fjármálastjórn sveitarfélagsins?
 2. Hvernig eru óskir um viðbótarfjárveitingar meðhöndlaðar?
 3. Hvernig er óvæntum afgangi ráðstafað?

7.    Hver eru markmið varðandi fjármálastjórnun á næstu árum?

 1. Er ákveðin fjármálastefna til staðar?
 2. Eru til skýr markmið varðandi:
 1. Ákvörðun þjónustugjalda.
 2. Rekstrarniðurstöðu.
 3. Veltufé frá rekstri.
 4. Lausafjárhlutfall.
 5. Niðurgreiðslu skulda.
 6. Meðhöndlun óska um aukafjárveitingar.
 7. Vinnslu og afgreiðslu viðauka

Að lokum er rétt að benda á að skynsamlegt getur verið að spyrja eftirfarandi lokaspurningar í framhaldi af þeim svörum sem hafa fengist við fyrrgreindum spurningum:

Er núverandi fjármálastjórn ásættanleg eða þurfa að eiga sér stað breytingar í pólitískri stefnumörkun hvað hana varðar?