XVII. landsþing sambandsins

Föstudaginn 15. mars verður XXVII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga haldið á Grand hóteli í Reykjavík.

Á landsþinginu eiga sæti 150 fulltrúar frá sveitarfélögunum 74. Samkvæmt samþykktum sambandsins kjósa sveitarstjórnir fulltrúa á landsþing að afloknum sveitarstjórnarkosningum og gildir sú kosning fyrir kjörtímabil sveitarstjórnar, nema sveitarstjórnir ákveði annað. Að auki eiga bæjar- og sveitarstjórar seturétt á landsþinginu með málfrelsi og tillögurétti, formenn og framkvæmdastjórar landshlutasamtaka sveitarélaga og þeir stjórnarmenn sem ekki eru kjörnir landsþingsfulltrúar síns sveitarfélags – alls um 65 manns. Seturétt á landsþingi eiga því rúmlega 200 manns.

Þetta landsþing er það síðasta á kjörtímabilinu því landsþing 2014 verður ekki haldið fyrr en eftir sveitarstjórnarkosningar á næsta ári. Yfirskrift þingsins er Áfram veginn og vísar til þess að verkefni sveitarstjórna breytast ekki þó hugsanlega verði breytingar á skipan þeirra við sveitarstjórnarkosningar.

Umfjöllunarefnum landsþingsins verður skipt upp í þrjá meginþætti:

  • Hvað er í deiglunni? Undir þessum lið mun fulltrúi frá sveitarfélagasambandinu í Danmörku (KL) greina frá því sem efst er á baugi hjá dönskum sveitarfélögum í dag. Hann mun fjalla m.a. um vinnutímamál kennara, hagræðingaraðgerðir og rafræna stjórnsýslu. Stjórnarmaður í sambandinu mun bregðast við og fara yfir stöðuna hér á landi.
  • Svæðasamvinna sveitarfélaga – þriðja stjórnsýslustigið? Kynnt verður áfangaskýrsla nefndar um hlutverk landshlutasamtaka sveitarfélaga og þróun í svæðasamvinnu sveitarfélaga og kallað eftir sjónarmiðum þingfulltrúa.
  • Lærdómur í lok kjörtímabils – leiðarljós á nýju kjörtímabili. Hér verður velt upp ýmsum spurningum um þróun sveitarstjórnarstigsins á kjörtímabilinu, reynslu af nýjum sveitarstjórnarlögum og þjónustu sambandsins.

Landsþingsfulltrúum verður innan skamms send dagskrá ráðstefnunnar og beiðni um að þeir skrái þátttöku sína eða láti vita ef forföll hamla setu þeirra á þinginu.

Dagskráin á vef sambandsins.

Umraedur13

Frá XXVI. landsþingi sambandsins, sem haldið var á Hótel Natura 23. mars 2012.

Umraedur14

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð og Hjálmar Hjálmarsson, bæjarfulltrúi í Kópavogi.

Umraedur15

Séð yfir salinn á Landsþinginu 2012.