Skólavogin – lykiltölur um skólahald settar í samhengi

Skólavogin var tilraunaverkefni sambandsins og valinna sveitarfélaga 2007–2010. Markmiðið var að auðvelda sveitarstjórnarmönnum yfirsýn yfir skólahald; rekstrarlega þætti, árangur og viðhorf.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Skólapúlsinn ehf. undirrituðu samstarfssamning um framkvæmd Skólavogar í desember 2011. Skólapúlsinn hefur frá árinu 2008 boðið grunnskólum landsins rafræna viðhorfakönnun fyrir nemendur og frá árinu 2013 er boðið upp á viðhorfakönnun fyrir foreldra og einnig fyrir starfsmenn grunnskóla. Samkvæmt samningnum sér Skólapúlsinn ehf. um framkvæmd og úrvinnslu Skólavogarinnar. Þátttaka í Skólavog felur ekki í sér sjálfstæðar viðhorfakannanir þar sem niðurstöður úr Skólapúlsinum nýtast inn í Skólavogina.Skólavogin er verkfæri sveitarfélagsins og Skólapúlsinn er verkfæri skólans.

Ávinningur sveitarfélaga af þátttöku:

  • Aukin yfirsýn yfir skólahald. Upplýsingar aðgengilegar um viðhorf og líðan nemenda, viðhorf foreldra og starfsfólks, námsárangur í samræmdum prófum og ýmsar rekstrarupplýsingar.
  • Upplýsingar dregnar saman úr ýmsum áttum og settar í samhengi. Eru tengsl á milli starfsánægju í skólanum og árangurs í samræmdum prófum?  Skilar hærri rekstrarkostnaður á hvern nemanda betri árangri á samræmdum prófum, eða betri líðan í skólanum?
  • Samanburðarhæfar upplýsingar. Stjórnendur geta borið saman lykiltölur um skólahald milli skóla innan sveitarfélagsins og einnig við skóla í öðrum sveitarfélögum undir nafnleynd. Samanburðurinn nær einnig yfir tíma og því mögulegt að skoða þróun lykiltalna skólans yfir ákveðið tímabil.
  • Niðurstöður geta nýst við úthlutun fjármagns til skóla með markvissum samanburði við aðra skóla og/eða önnur sveitarfálög.
  • Skólavogin nýtist við að koma til móts við lögbundnar skyldur um mat og eftirlit með skólum.

Í dag taka 19 sveitarfélög þátt í Skólavoginni sem ná yfir samtals 80% íbúa landsins og 78% grunnskólanemenda.

Stefnt er að hliðstæðri kortlagningu fyrir leikskóla.

Skráning og frekari upplýsingar

Sótt er um þátttöku í Skólavoginni á heimasíðu verkefnisins. Frekari upplýsingar veitir Kristján Ketill Stefánsson á kristjan@skolapulsinn.is eða í síma 499-0690. Upplýsingar veitir einnig Valgerður Ágústsdóttir sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins
valgerdur@samband.is.

Nánar um verkefnið.

Skolavogin

IMG_9931a