Samráðsfundur sveitarfélaga

– vegna stefnumótunar um upplýsingasamfélagið 2013-2017

Innanríkisráðherra hefur skipað kjarnahóp til að vinna að mótun tillagna um stefnu um upplýsingasamfélagið 2013-2017 sem mun leysa af hólmi stefnuna um „Netríkið Ísland“. Öll ráðuneytin eiga aðild að hópnum og Samband íslenskra sveitarfélaga er þar með tvo fulltrúa, þau Önnu Guðrúnu Björnsdóttur sviðsstjóra þróunar- og alþjóðasviðs og Hjört Grétarsson upplýsingatæknistjóra Reykjavíkurborgar. Víðtækt samráð mun verða um vinnuna og kappkostað að öll vinnugögn verði aðgengileg á heimasíðu innanríkisráðuneytisins. Á grundvelli fjölmenns samráðsfundar hafa verið mótuð sex áherslusvið sem eru: Þekkingaruppbygging; opin og gagnsæ stjórnsýsla; arkitektúr, öryggi og samvirkni kerfa; hagræðing og skilvirkni; aukið lýðræði og aukin þjónusta.

Að undanförnu hefur átt sér stað samráð um nánari útfærslu þessara áherslusviða. Í þeim tilgangi var sveitarfélögum boðið til samráðsfundar 4. febrúar sl. Á fundinum voru einnig kynntar tillögur stýrihóps um rafræna stjórnsýslu hjá ríki og sveitarfélögum. Þorleifur Gunnlaugsson varaborgarfulltrúi stýrði þeim hópi og lagði hópurinn m.a. til að rekstur og þjónusta rafrænnar auðkenningar fyrir vefi ríkis og sveitarfélaga verði miðlæg á vefsvæðinu Ísland.is og að Þjóðskrá Íslands verði falið að reka og þróa auðkenningarþjónustu Ísland.is. Einnig lagði hópurinn til að ráðist verði í tilraunaverkefni til að styðja við þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum. Unnið er að framkvæmd þessara tillagna og er frumvarp, sem lagt hefur verið fram á Alþingi til að greiða fyrir rafrænum kosningum, þáttur í innleiðingu á tillögum hópsins.

Á samráðsfundinum kom fram ánægja með þessar tillögur og margar góðar ábendingar varðandi stefnumótunarvinnuna. Þátttakendur voru sammála um að brýn þörf er á samstilltu átaki ríkis og sveitarfélaga um framþróun á þessu sviði. Hvorki ríki né sveitarfélög eru að hagnýta sér upplýsingatæknimöguleika á nægilega markvissan hátt.

aIMG_0499