Kjaraviðræður við Félag grunnskólakennara, samkomulag um endurnýjaða viðræðuáætlun

Þann 15. febrúar 2013 var undirritað samkomulag milli Sambands íslenskra sveitarfélag og Kennarasambands Íslands, vegna Félags grunnskólakennara, um endurnýjaða viðræðuáætlun aðila, sem gildir til 28. febrúar 2014. Á gildistíma viðræðuáætlunar ríkir friðarskylda.

Samband íslenskra sveitarfélaga og Félag grunnskólakennara munu á gildistíma viðræðuáætluninnar, í samvinnu við Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Skólastjórafélag Íslands, standa að greiningu á framkvæmd stefnunnar “skóli án aðgreiningar” og hvaða áhrif hún hefur á skólastarf.  

Sömu aðilar munu einnig efla samræður um hvernig staðið skuli að innleiðingu aðalnámskrár fyrir grunnskóla.

Laun grunnskólakennara hækka um 4%, samkvæmt launatöflu með gildistíma 1. mars 2013. Áður umsamdar annaruppbætur greiðast á árinu 2013.

Á grundvelli niðurstöðu forsendunefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga og stéttar- og verkalýðsfélaga innan ASÍ, BHM, BSRB og KÍ, vegna annarra en Félags grunnskólakennara, verður framlag til, annað hvort Vonarsjóðs eða Sjúkrasjóðs KÍ, hækkað í áföngum um 0,1% eigi síðar en 1. janúar 2015. Þetta atriði verður útfært nánar í næsta kjarasamningi aðila.

samkomulag-vidraeduaaetlun