Breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga

Samþykkt hefur verið í ríkisstjórn frumvarp um breytingar á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Tillögur í frumvarpinu byggjast á samkomulagi ríkis, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins frá því í desember um Liðsstyrk - atvinnutengt átaksverkefni á árinu 2013 (sjá: lidsstyrkur.is). Frumvarpið leggur grunn að breyttu fyrirkomulagi við ákvarðanir um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Gengið er út frá því að frumvarpið hljóti afgreiðslu fyrir þinglok í vor og taki þá þegar gildi.

Liðsstyrkur snýr að atvinnuleitendum sem hafa þegar fullnýtt eða munu að óbreyttu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Meginmarkmið verkefnisins er að efla þennan hóp til þátttöku að nýju á vinnumarkaði og koma í veg fyrir að langvarandi atvinnuleysi leiði til óvinnufærni. Verkefnið er háð því að sköpuð verði fleiri og ný atvinnutækifæri auk þess sem áfram verði boðið upp á úrval virkniúrræða af hálfu stjórnvalda.

Ein af forsendum verkefnisins er að sveitarfélögin fái hliðstæðar heimildir og Vinnumálastofnun og Atvinnuleysistryggingasjóður hafa nú til þess að setja skilyrði um að þeir sem fá greiðslur séu virkir í atvinnuleit eða taki þátt í atvinnutengdum úrræðum. Framkomnu frumvarpi er ætlað að stuðla að því með almennum hætti að atvinnuleitendur séu í virkri atvinnuleit þann tíma sem þeir fá greidda fjárhagsaðstoð og sýni vilja til að standa á eigin fótum og framfæra sjálfan sig, maka og börn eftir bestu getu til samræmis við þá skyldu sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 19. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Frumvarpið hefur að geyma heimildarákvæði og samkvæmt því eiga sveitarfélög val um það hvort þau taka upp í reglur sínar ákvæði sem skilyrða fjárhagsaðstoð. Telja verður líklegt muni almennt huga að breyttu fyrirkomulagi þar sem gera má ráð fyrir að um 2.000 atvinnuleitendur verði að meðaltali án atvinnu og ekki tryggðir innan atvinnuleysistryggingakerfisins á árinu 2013. Ljóst er að mjög margir innan þessa hóps muni á einhverjum tímapunkti óska eftir fjárhagsaðstoð frá sínu sveitarfélagi.

Lykilatriði í nýja fyrirkomulaginu er að einungis verður heimilt að skilyrða fjárhagsaðstoð til þeirra sem teljast vinnufærir að hluta eða öllu leyti. Gert er ráð fyrir að ákveðin skimun fari fram innan félagsþjónustu sveitarfélaga á því hvort líkur séu á að hlutaðeigandi sé vinnufær og sé það raunin verði viðkomanda vísað til Vinnumálastofnunar þar sem hann sækir jafnframt um þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum á grundvelli laga um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 55/2006. Þannig er miðað við að áður en til skilyrðingar á fjárhagsaðstoð geti komið fari fram mat á vinnufærni hlutaðeigandi einstaklings hjá ráðgjafa Vinnumálastofnunar í samræmi við 11. gr. laga um vinnumarkaðsaðgerðir.  Leiði mat á vinnufærni einstaklings í ljós að viðkomandi sé ekki vinnufær að hluta eða að öllu leyti skal honum vísað til félagsþjónustu hlutaðeigandi sveitarfélags.

Frumvarpið var samið í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök félagsmálastjóra á Íslandi og veita starfsmenn sambandsins fúslega allar nánari upplýsingar um málið.

aVeidifelagid-2008-121
Frá Grundarfirði.