Unnið að umsögn um frumvarp um breytingar á úrgangslögum

IMG_1362Verkefnisstjórn um úrgangsmál fundaði 16. desember sl. og var meginumræðuefni fundarins frumvarp til laga um breytingar á lögum um meðhöndlun úrgangs. Frumvarpið hefur verið í vinnslu undanfarin misseri og er það álit sérfræðinga sambandsins að alvarlegum ágreiningsmálum í frumvarpinu hafi fækkað umtalsvert, þótt ýmis atriði í því hefði mátt orða skýrar. Stefnt er að því að drög að umsögn sambandsins verði send sveitarfélögum til kynningar og athugasemda fyrir jól.

Helstu atriði sem fjallað verður um í umsögn sambandsins eru eftirtalin:

  • Frumvarpið getur haft í för með sér umtalsverð kostnaðaráhrif fyrir sveitarfélögin, annars vegar vegna kröfu um sérstaka söfnun úrgangs frá heimilum og hins vegar vegna markmiða um að draga úr urðun úrgangs. Afar mikilvægt er að sú stefna sem mótuð verður í málaflokknum byggi á kostnaðar- og ábatagreiningu og leggur sambandið áherslu á að sveitarfélögin hafa ekki áhuga á því að hækka álögur á íbúa til þess að ná tölulegum markmiðum um meðhöndlun úrgangs nema slík markmið hafi skýran og málefnalegan tilgang.
  • Fyrirkomulag sérsöfnunar verði ekki um of niðurnjörvað í lögunum heldur að sveitarfélög fái svigrúm til að útfæra þær leiðir sem þykja hagkvæmastar í hverju tilfelli. Núverandi fyrirkomulag sérsöfnunar úrgangs í sveitarfélögum er nokkuð mismunandi og hafa sum þeirra stærstu, t.d. Reykjavík og Akureyri, notað grenndargáma með góðum árangri. Sambandið leggur því áherslu á að markmiðin með endurvinnslu úrgangs séu skýr en að sveitarfélög hafi svigrúm til að ákveða hvar og með hvaða hætti sérsöfnun úrgangs eigi sér stað.
  • Sambandið telur það ekki vera rétt skref að afnema einkarétt Endurvinnslunnar hf. á söfnun og meðhöndlun drykkjarvöruumbúða og koma þess í stað á fót sjálfstæðum skilakerfum
  • Nýta hefði mátt betur það tilefni, sem innleiðing rammatilskipunar ESB um úrgang felur í sér, til þess að kveða skýrar á um ýmis mikilvæg atriði í lögunum, svo sem hver beri ábyrgð á meðhöndlun úrgangs á mismunandi stigum hennar. Sérstaklega telur sambandið því brýnt að fækka álitaefnum varðandi skil úrgangslaga og samkeppnislaga þar sem deilumál við einkafyrirtæki útheimta sífellt meiri tíma og orku, sem ella mætti beina í þá átt að þróa og bæta þjónustu við almenning á sviði úrgangsmála.

Umsagnarfrestur var upphaflega veittur til 20. desember en að ósk sambandsins var fresturinn lengdur til 17. janúar. Sambandinu hafa þó borist fregnir af því að Alþingi vilji helst fá umsagnir eigi síðar en 8. janúar og mun verða reynt að verða við því til að umfjöllun um frumvarpið geti hafist í umhverfis- og samgöngunefnd strax eftir áramótin.

IMG_1251