Siðanefnd sambandsins

ethics-comÁ fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var föstudaginn 13. desember sl., var skipað í siðanefnd sambandsins, Nefndin starfar á grundvelli 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 þar sem segir m.a.:

Samband íslenskra sveitarfélaga skipar nefnd sem veitt getur álit um siðareglur og um ætluð brot á þeim. Ráðuneytið getur borið tillögur sveitarstjórna um siðareglur undir nefndina áður en það tekur þær til staðfestingar.

Samkvæmt erindisbréfi nefndarinnar skal nefndin skipuð þremur mönnum. Einn þeirra skal hafa sérþekkingu á siðfræði, einn sérþekkingu á sviði lögfræði og sá þriðji víðtæka reynslu af sveitarstjórnarmálum. Stjórn sambandsins skipar formann og varaformann.

Í nefndina voru skipuð Sigurður Kristinsson, heimspekingur og prófessor á hug- og félagsvísindasviði Háskólans á Akureyri, formaður; Erling Ásgeirsson, bæjarfulltrúi í Garðabæ, varaformaður; og Anna Guðrún Björnsdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs sambandsins.

Starfsmaður og ritari nefndarinnar verður Valur Rafn Halldórsson, stjórnsýslufræðingur og sérfræðingur á hag- og upplýsingasviði sambandsins.

Helstu verkefni nefndarinnar eru:

  • Að veita ráð um efni og framsetningu siðareglna og endurskoðun þeirra.  
  • Af gefa út almennar leiðbeiningar til sveitarfélaga um túlkun siðareglna eftir því sem tilefni eru til.
  • Að fjalla almennt um skýringar á ákvæðum siðareglna með það fyrir augum að málum verði beint í réttan farveg. Nefndin hefur ekki úrskurðarvald um hvort siðaregla hafi verið brotin í ákveðnu tilviki heldur beinist umfjöllun hennar að því hvernig hægt sé að færa mál til betra horfs í framtíðinni.
  • Að veita sambandinu og stjórn þess aðstoð þegar þörf er á sérþekkingu sem nefndarmenn búa yfir, m.a. vegna námskeiða- og ráðstefnuhalds.

Á heimasíðu sambandsins er hægt að nálgast ýmsar gagnlegar leiðbeiningar um siðareglur, þ. á m.  fyrirmyndir sem sveitarstjórnir sem ekki hafa enn lokið gerð siðareglna geta stuðst við.