Rafrænar íbúakosningar

145Miðvikudaginn 18. desember undirrituðu Margrét Hauksdóttir, forstjóri Þjóðskrár Íslands, og Marc Prenafeta, sölustjóri spænska fyrirtækisins SCYTL í Evrópu, samning um aðlögun og afnot Þjóðskrár Íslands af kosningakerfi SCYTL og framkvæmd tveggja rafrænna íbúakosninga í tilraunaskyni. Kerfi SCYTL er í fremstu röð á heimsvísu og hefur m.a. verið nýtt í Noregi við sveitarstjórnarkosningar árið 2011 og þingkosningar haustið 2013. Kerfið verður tengt rafrænni kjörskrá og innskráningarþjónustu Ísland.is hjá Þjóðskrá Íslands, þar sem boðið verður upp á auðkenningu með rafrænum skilríkjum eða styrktum Íslykli.

Aðdragandi þessa er að með breytingum á sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi í júní 2013  var greitt fyrir því að íbúakosningar í sveitarfélögum yrðu rafrænar. Var Þjóðskrá Íslands falið að þróa og reka íbúakosningakerfi sem notað yrði við rafrænar íbúakosningar sveitarfélaga. Einnig var skipuð ráðgjafarnefnd um framkvæmd rafrænna íbúakosninga sem staðfestir val á kosningakerfi, fylgist með framkvæmd og dregur lærdóm af rafrænum íbúakosningum. Í ráðgjafarnefndinni eiga sæti Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs sambandsins – formaður, Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi í Reykjavíkurborg, og Anna Jörgensdóttir, bæjarlögmaður Hafnarfjarðarkaupstaðar.

Þjóðskrá Íslands kynnti sér stöðu rafrænna kosninga hjá nokkrum þjóðum sem hafa getið sér gott orð á því sviði og kom þá fljótt í ljós að Norðmenn eru í fremstu röð í þessum efnum. Norðmenn hafa notað kerfi SCYTL um árabil, tekið virkan þátt þróun þess og meðal annars lagt því til viðbætur sem snúa að ströngum öryggiskröfum. Munu Íslendingar njóta góðs af þeirri þróun.

Í ljósi jákvæðrar reynslu Norðmanna af kerfinu og samstarfi við SCYTL var ákveðið að leita eftir samstarfi við fyrirtækið og hefur nú verið gengið frá samningi um aðlögun og afnot Þjóðskrár Íslands af kosningakerfi SCYTL og framkvæmd tveggja íbúakosninga í tilraunaskyni.

Spænska fyrirtækið  SCYTL hefur þróað rafrænt kosningakerfi frá 2001 og í raun fyrr, þar sem stofnendur þess voru framarlega í hönnun dulkóðunaraðferða vegna kosninga í háskólaumhverfinu allt frá árinu 1995. Kerfið er nú í notkun með ýmsum hætti í 18 þjóðlöndum. 300 starfsmenn vinna hjá SCYTL. 

138