Sætta þarf ólík sjónarmið í nýjum náttúruverndarlögum

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sent Alþingi umsögn um frumvarp um náttúruvernd (brottfall laga nr. 60/2013). Í umsögninni tekur sambandið undir mikilvægi þess að ná betri sátt um náttúruverndarlögin. Sambandið tekur hins vegar ekki formlega afstöðu til þess hvort fella beri náttúruverndarlög nr. 60/2013 alveg úr gildi, eins og lagt er til í frumvarpinu, eða hvort nægilegt væri að fresta gildistöku náttúruverndarlaga nr. 60/2013, á meðan unnið væri að endurskoðun, þar sem m.a. yrði tekið tillit til þeirra athugasemda sambandsins sem ekki fengu umfjöllun af hálfu Alþingis, sbr. viðbótarumsögn frá 8. mars 2013.

Sambandið kallar eftir því að í tengslum við endurskoðun laganna fari fram heildstæð umræða um reynsluna af gildandi náttúruverndarlögum og að mótuð verði skýr framtíðarsýn um fjölda friðaðra náttúrusvæða og umsýslu þeirra, með aukinni aðkomu sveitarfélaga að stjórnun svæðanna. Þá leggur sambandið áherslu á að við ákvarðanir um friðun og verndun landsvæða verði ávallt haft samráð við hlutaðeigandi sveitarfélög og landshlutasamtök og að horft verði til þess að náttúruverndarlög og ákvarðanir sem teknar eru á grundvelli þeirra verði ekki til þess að flækja að óþörfu stjórnsýslu í skipulagsmálum sveitarfélaga.

Málið er til umfjöllunar í umhverfis- og samgöngunefnd en það verður ef að líkum lætur ekki afgreitt frá nefndinni fyrir jólahlé á Alþingi.