Hávaði og hljóðvist í skólum

Á grundvelli bókunar 5 með kjarasamningi Félags leikskólakennara og Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 2011 og samhljóða bókun sömu aðila frá árinu 2006, sem fjallar um starfsaðstæður, hafa sambandið og Kennarasamband Íslands hafið samstarf um að bæta hljóðvist og draga úr hávaða í skólum. Góð hljóðvist ætti að vera hagsmunamál allra er koma að skólastarfi. Hávaði getur haft víðtæk áhrif á heilsu og vellíðan einstaklinga. Börn eru mun viðkvæmari fyrir hávaða en fullorðnir og minna þarf til að heyrn þeirra skaðist. Ekki má gera minni kröfur til starfsumhverfis barna en fullorðinna.

Til þessa hefur sambandið ekki haft beina aðkomu að verkefnum um að draga úr hávaða og bæta hljóðvist í skólum. Fulltrúi sambandsins fjallaði þó um hljóðvist og hávaða í skólum á vorfundi Grunns í maí sl. og dreifði blaðinu Talfræðingurinn, en í því eru greinar eftir fyrirlesara á ráðstefnu sem haldin var í Reykjavík í október á síðasta ári um skaðsemi hávaða á rödd, heyrn og almenna líðan í námsumhverfi barna. Auk þess fjallaði Valdís Jónsdóttir um erilshávaða og hljóðvistarmál í leikskólum á skólaþingi sveitarfélaga 4. nóvember sl. Er erindið aðgengilegt á vef sambandsins.

Liður í hinu nýja samstarfsverkefni sambandsins og KÍ var „hugarflugsfundur“ sem haldinn var í húsakynnum sambandsins að Borgartúni 30, fimmtudaginn 12. desember sl. þar sem 20 fulltrúar frá 12 stofnunum og samtökum hittust og ræddu þetta þverfaglega vandamál. Voru fundarmenn sammála um að fundurinn hafi verið þarfur, upplýsandi og gagnlegur og að aukinn skilningur og meðvitund um mikilvægi hljóðvistar er nauðsynlegur. Er vilji allra aðila að taka upp samvinnu um aðgerðir með það að markmiði að opna augu fólks fyrir vandanum og finna leiðir til úrlausna. Voru fundarmenn á einu máli um að með umræðum og átaki mun árangur nást í baráttu við hávaða í námsumhverfi barna.

IMG_1347