Byggingarreglugerð – eru frekari breytingar á teikniborðinu?

IMG_4127Meiri sveigjanleika vantar í byggingar-reglugerð til að geta mætt þörf fyrir fleiri litlar og ódýrar íbúðir.  Þetta var það sem fram kom á málþingi Reykjavíkurborgar og Mannvirkjastofnunar sem haldið var fimmtudaginn 12. desember sl.

Allt frá því að mannvirkjalög voru sett í lok árs 2010 hefur sambandið fylgst náið með reglugerðarvinnunni. Upphaflega birtist reglugerðin í febrúar 2012 og hlaut hún þá allmikla gagnrýni, m.a. frá sambandinu, vegna áhrifa til hækkunar á byggingarkostnaði. Síðan hefur reglugerðinni verið breytt í tvígang og margvíslegir annmarkar sniðnir af henni. Ljóst er að þær breytingar hafa dregið úr þeim kostnaðarauka sem talið var að upphafleg útgáfa reglugerðarinnar myndi hafa í för með sér.

Eftir stendur hins vegar gagnrýni á nokkur atriði í reglugerðinni sem talin eru óþarflega íþyngjandi fyrir sveitarfélögin sem framkvæmdaraðila. Þá hefur sambandið einnig bent á að ákvæði reglugerðarinnar séu um of stýrandi gagnvart hönnun íbúða. Mikilvægt sé fyrir sveitarfélögin að geta mætt eftirspurn eftir smærri og ódýrari íbúðum. Er þá sérstaklega horft til Reykjavíkurborgar og Kópavogsbæjar sem gert hafa skipulagsáætlanir og þróað hugmyndir um leigufélög.

Páll Hjaltason er formaður skipulags- og byggingarráðs Reykjavíkurborgar, og fulltrúi í skipulagsmálanefnd sambandsins, og kynnti hann þessar áherslur borgarinnar í erindi á málþinginu. Þétting byggðar og aukið hlutfall leiguhúsnæðis í hverfum borgarinnar er hluti af nýju aðalskipulagi, sem borgarstjórn hefur samþykkt, og er nú í umsagnarferli hjá Skipulagsstofnun.

Guðrún Björnsdóttir, framkvæmdastjóri Félagsstofnunar stúdenta, tók undir þessar áherslur borgarinnar og benti einnig á að krafa um minni, ódýrari íbúðir á miðlægum svæðum væri ekki einskorðuð við stúdenta heldur væru nýjar kynslóðir að koma fram með annað gildismat en þær sem á undan hefðu komið.

Auðun Freyr Ingvarsson er nýráðinn framkvæmdastjóri Félagsbústaða hf., og fjallaði hann í sínu erindi á málþinginu um stöðu Félagsbústaða sem er stærsta leigufélag landsins. Fram kom að um 20% íbúa Reykjavíkurborgar búa í leiguhúsnæði í dag, en neyðarástand ríkir á leigumarkaði þar sem mikil vöntun er á litlum hagkvæmum eignum til útleigu. Stór hluti ungs fólks á ekki eigið fé til íbúðakaupa og margir þeirra sem eiga sparnað vilja ekki festa hann í fasteignum heldur frekar leigja. Taldi Auðun ljóst að hið opinbera þyrfti að skerast í leikinn til þess að auka framboð á langtímaleiguhúsnæði, sérstaklega litlum, ódýrum íbúðum.

Fram kom á málþinginu að frekari breytingar á byggingarreglugerð væru nú til skoðunar í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu, en engar ákvarðanir hafa þó verið teknar um efni þeirra. Þá er starfandi á vegum ráðuneytisins nefnd sem hefur það hlutverk að fylgjast með áhrifum reglugerðarinnar á byggingarkostnað og stjórnsýslu sveitarfélaganna. Nefndin hefur óskað eftir því við embætti byggingarfulltrúa í Akureyrarkaupstað, Fjarðabyggð, Kópavogsbæ og uppsveitum Árnessýslu að taka þátt í þeirri vinnu.

Af hálfu sambandsins hefur verið lögð rík áhersla á að samráð verði haft við undirbúning slíkra breytinga til þess að tryggja að markmiðum þeirra verði náð. Einnig er rætt um byggingarreglugerðina í tengslum við vinnu sem nú stendur yfir á vettvangi velferðarráðuneytisins, um mótun húsnæðisstefnu til framtíðar en fulltrúar sveitarfélaganna taka þátt í nefndum og teymum sem skipuð hafa verið um ýmsa þætti  varðandi framtíðarskipan húsnæðismála.

IMG_7194-3Valur