Samkomulag um áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi

IMG_5803Á fundi stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga þann 13. desember 2013 var kynnt nýtt samkomulag um áfallahjálp í skipulagi almannavarna á Íslandi dagsett 10. desember 2013. Halldór Halldórsson, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd sambandsins. Markmiðið með samkomulaginu er að efla og styrkja enn frekar áfallahjálp bæði til skemmri og lengri tíma.

Aðilar að samkomulaginu eru auk sambandsins Biskupsstofa, Landlæknir, Landspítalinn, Rauði krossinn á Íslandi og Ríkislögreglustjóri.

Samkvæmt hinu nýja samkomulagi sér Rauði krossinn á Íslandi  um samhæfingu og hefur umsjón með áfallahjálp á Íslandi í umboði samstarfsaðila og samkvæmt samkomulagi um hjálparlið almannavarna frá 2012. Rauði krossinn hefur jafnframt umsjón með fjöldahjálp og félagslegu hjálparstarfi í skipulagi almannavarna, auk þess að koma að mönnun Samhæfingar- og stjórnstöðvar almannavarna og aðgerðastjórna almannavarna.

Rauði Krossinn vinnur að hlutverki sínu í samstarfi við samráðshóp áfallahjálpar á landsvísu en í honum sitja fulltrúar frá aðilum samkomulagsins, þar á meðal sambandsins. Hlutverk samráðshópsins er að móta stefnu og gæta þess að besta þekking og úrlausnir á sviði áfallahjálpar endurspeglist í skipulagi áfallahjálpar á hverjum tíma. Á hamfaratímum vinnur samráðshópurinn áætlun um hvernig áfallaþjónusta færist frá Rauða krossinum inn í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu sveitarfélaga, stofnanir kirkjunnar á landsvísu eða til einkaaðila þegar neyðaraðgerðum lýkur eða eftir því sem aðgerðum vindur fram, í samráði við Samhæfingar- og stjórnstöð almannavarna.  

Vegna atburða á einstökum stöðum á landinu vinna Rauði Krossinn og samráðshópur á landsvísu í nánu samstarfi við samráðshópa um áfallahjálp í umdæmum lögreglustjóra. Eru þeir samráðshópar mannaðir fulltrúum frá Rauða Krossinum, heilbrigðisstofnunum, sveitarfélögum, kirkju og lögreglu í hverju umdæmi fyrir sig.  Vinna hóparnir með upplýsingagjöf og fræðslu auk þess sem þeir gera áætlun í samstarfi við aðgerðastjórn almannavarna í umdæminu um það hvernig áfallaþjónustan færist, þegar neyðaraðgerðum lýkur,  inn í heilbrigðisþjónustuna, félagsþjónustu sveitarfélaga, stofnanir kirkjunnar eða til einkaaðila í viðkomandi umdæmi.

Fulltrúi sambandsins í Samráðshópi áfallahjálpar á landsvísu er Berglind Magnúsdóttir, skrifstofustjóri á Velferðarsviði Reykjavíkurborgar.

_MG_7719