Að loknu umhverfisþingi

Umhverfisthing2013

Á umhverfisþingi, sem haldið var 8. nóvember sl., var lögð áhersla á að fjalla um landnýtingu. Tvær málstofur voru haldnar um þetta málefni. Fjallaði önnur um sjálfbæra landnýtingu og hin um skipulag haf- og strandsvæða. Þessi umfjöllunarefni áttu vel við með tilliti til þess að í lok október kynnti umhverfis- og auðlindaráðherra áherslur sínar við gerð landsskipulagsstefnu fyrir tímabilið 2015-2026. Áherslurnar eru fjórar að þessu sinni og eru fyrstu þrír liðirnir óbreyttir frá þeirri vinnu sem lauk í byrjun þessa árs en fjórði liðurinn er nýr:

  1. Skipulag á miðhálendi Íslands
  2. Búsetumynstur – dreifing byggðar
  3. Skipulag á haf- og strandsvæðum
  4. Skipulag landnotkunar í dreifbýli

Á umhverfisþinginu hélt Ragnar Frank Kristjánsson, forseti bæjarstjórnar Borgarbyggðar, erindi um þá áskorun sem felst í því fyrir landstór sveitarfélög að kortleggja landnotkun og setja stefnu í aðalskipulag um að rýra ekki gott ræktunarland ( slóð á bæði glærur og erindi Ragnars á vef UAR). Fleiri áhugaverð erindi voru flutt um landnýtingu í dreifbýli eins og sjá má á heimasíðu umhverfisráðuneytisins. Líflegar umræður voru á þinginu um markmið landnýtingaráætlunar í dreifbýli og var m.a. haldið á lofti því sjónarmiði af hálfu sveitarfélaga að gagnlegt væri fyrir sveitarfélögin að sett yrði fram stefna eða almenn leiðarljós í landsskipulagsstefnu um þetta efni en að slík stefna ætti ekki að leiða til skerðingar á skipulagsvaldi sveitarfélaga. Þannig sé t.d. ekki sjálfgefið að farin verði sú leið sem lögð er til í drögum að frumvarpi um breytingar á jarðalögum ( sjá frétt á vef SLR frá 3. mars 2013), að það verði landbúnaðarráðherra sem taki ákvörðun um hvort fallist er á beiðnir um að taka land úr landbúnaðarnotum.

Fjölmörg önnur álitaefni voru rædd á umhverfisþingi. Sérstaka athygli vakti einörð andstaða þingfulltrúa sem til máls tóku við þá ákvörðun atvinnuvegaráðherra að taka upp náttúrupassa til að fjármagna nauðsynlegar framkvæmdir á ferðamannastöðum.

Nánar vísast til erinda Önnu Dóru Sæþórsdóttur og Ásborgar Ásþórsdóttir um það álitaefni á þinginu.