Sveitarstjórnarkosningar

Í aðdraganda sveitastjórnarkosninga sem fram fara 31. maí 2014 er fróðlegt að greina aðeins niðurstöður síðustu sveitarstjórnarkosninga árið 2010.

Kosningaþátttaka árið 2010 var sú lægsta í 40 ár eða 73,5% á landinu í heild og hafði lækkað um 5,2 %-stig frá kosningunum árið 2006. Á tímabilinu 1970 til 2010 var kosningaþátttaka mest árið 1974 eða 87,8%. Kosningaþátttaka var mismunandi milli sveitarfélaga og skildu 41,3 %-stig milli Kjósarhrepps, þar sem kosningaþátttaka var mest 93,7%, og Skorradalshrepps, þar sem hún var minnst 52,4%.

Mynd1

Kjörsókn í sveitarstjórnarkosningum 1970–2010.

Til samanburðar má geta þess að kjörsókn í alþingiskosningunum árið 2009 var 85,1%, í þjóðaratkvæðisgreiðslu sem fram fór 2010 var kjörsókn 62,7% og í forsetakjöri 2012 var kosningaþátttaka 69,3%.

Í 18 sveitarfélögum af 76 fór fram óbundið persónukjör en annars staðar var kosningin bundin hlutfallskosning með framboðslistum. Sjálfkjörið var í fjórum sveitarfélögum: Breiðdalshreppi, Djúpavogshreppi, Sveitarfélaginu Skagaströnd og Tálknafjarðarhreppi.

Kjörnir voru 512 sveitarstjórnarmenn í kosningunum 2010 og hafði þeim fækkað um 17 frá kosningunum 2006, en þá voru sveitarfélögin 79.

Konur í sveitarstjórnum voru kosnar 204 eða 39,8% og karlar 308 eða 60,2%. Eftir kosningarnar árið 2006 voru konur í sveitarstjórnum 189 – 35,7% og karlar 340 – 64,3%. Hlutfall kvenna í sveitarstjórnum hafði því hækkað milli kosninga.

Áhugavert er að skoða hvert hlutfall „nýrra“ sveitarstjórnarmanna var eftir kosningarnar 2010. Af þeim 512 fulltrúum sem kjörnir voru reyndust 281 eða 54,9% vera kjörnir aðalmenn í fyrsta sinn, 111 eða 21,7% í annað sinn og 61 eða 11,9% í þriðja sinn. Við kosningarnar 2006 voru 274 eða 51,8% kjörnir aðalmenn í sveitarstjórn í fyrsta sinn. Athyglisvert er að við kosningarnar 2010 voru aðeins 111 af þeim 274 sem kjörnir voru fyrsta sinn 2006 endurkjörnir eða 40,5%. Rétt er að taka fram að einhver hluti þeirra sem kjörnir eru aðalmenn í fyrsta sinn hafa setið sem varamenn um lengri eða skemmri tíma, svo ekki er hægt að segja að þeir hafi allir verið óreyndir sveitarstjórnarmenn.

Þessi mikla endurnýjun sveitarstjórnarmanna vekur auðvitað upp spurningar og það væri verðugt rannsóknarefni hvers vegna svo mikil endurnýjun verður kosningar eftir kosningar. Er það eitthvað í starfsumhverfinu sem veldur þessu? Þarf  mögulega að bæta kjör sveitarstjórnarmanna? Hefur sameining sveitarfélaga og meiri fjarlægðir gert mönnum erfiðara fyrir að sinna störfum sveitarstjórnarmannsins? Er áreitið og álagið með þeim hætti að menn gefast upp?

Í einni sveitarstjórn varð 100% endurnýjun frá fyrra kjörtímabili og í einni sveitarstjórn varð engin endurnýjun.

Elsti sveitarstjórnar-maðurinn sem tók sæti í sveitarstjórn 13. júní 2010 var 71 árs og sá yngsti 23 ára. Meðalaldur sveitarstjórnar-mannanna 512 var 44 ár. Og þegar litið er til starfsgreina þá voru bændur 84, kennarar og skólastjórar 43, framkvæmdastjórar 42 og bæjar- og sveitarstjórar 14.

Og til gamans þá bar 21 sveitarstjórnarmaður nafnið Guðmundur, nafnið Jón kom 19 sinnum fyrir, nafnið Sigurður báru 14, Gunnar 10 og kvenmannsnafnið Guðrún báru 9 sveitarstjórnarmenn.

Sá sem lengstan starfsaldur átti í sveitarstjórn var kjörinn í sveitarstjórnarkosningunum árið 1966, Davíð Pétursson, oddviti Skorradalshrepps, og sá sem kemst næst að starfsaldri í sveitarstjórn var kjörinn árið 1978, Guðbjartur Gunnarsson, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps.

Ítarefni má finna á vef sambandins.

Mynd2
Ó = Óbundin persónukosning  B = Bundin hlutfallskosning, listakosning