Innleiðing fjármálareglna hefur tekist með miklum ágætum

Althingi_300x300pSamband íslenskra sveitarfélaga hefur veitt umsögn um stjórnarfrumvarp um breytingu á sveitarstjórnarlögum, 152. mál. Í frumvarpinu er lögð til breyting á bráðabirgðaákvæði III við sveitarstjórnarlögin, sem varðar meðferð eignarhluta sveitarfélaga í orku- og veitufyrirtækjum, ef þeir fara upp fyrir viðmið í 12. gr. reglugerðar nr. 502/2012, um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Breytingin mun við núverandi aðstæður fyrst og fremst hafa áhrif á útreikning fjárhagslegra viðmiða í einu sveitarfélagi, sem er Reykjanesbær vegna eignarhlutar sveitarfélagsins í HS veitum.

Eins og umrætt bráðabirgðaákvæði er nú orðað er eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga skylt við útreikning á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga að undanskilja útgjöld, skuldir og skuldbindingar þeirra sveitarfélaga sem verða fyrir umtalsvert meiri útgjöldum og/eða bera umtalsvert meiri skuldir en annars væri vegna eignarhluta þeirra í veitu- og orkufyrirtækjum, í allt að tíu ár frá gildistöku laganna. Markmið ákvæðisins var að koma til móts við sveitarfélög sem ella væri sniðinn þröngur stakkur vegna skuldastöðu veitu- og orkufyrirtækja sem þau eiga eignarhluti í, svo sem Reykjavíkurborg vegna Orkuveitu Reykjavíkur. Ákvæðið er hins vegar orðað með það fortakslausum hætti að ekki hefur verið talið heimilt að taka reikningsskil veitu- og orkufyrirtækja inn í útreikninga á afkomu og fjárhagsstöðu sveitarfélaga þótt það yrði viðkomandi sveitarfélagi hagfellt, svo sem ef viðkomandi veitu- og orkufyrirtæki er fjárhagslega stöndugt.

Rekstur og skuldastaða sveitarfélaga hefur batnað

Sambandið styður, að það verði sveitarfélagi valkvætt hvort reikningsskil vegna eignarhluta í veitu- og orkufyrirtækjum verði undanskilin við mat á afkomu og fjárhagsstöðu þess, enda uppfylli það skilyrði ákvæðisins að öðru leyti. Sambandið styður einnig aðrar breytingar sem lagðar eru til á orðalagi ákvæðisins.

Í umsögninni er af hálfu sambandsins bent á að innleiðing fjármálareglna hefur tekist með miklum ágætum. Ljóst er að rekstur og skuldastaða sveitarfélaga hefur batnað mikið frá gildistöku sveitarstjórnarlaga og eiga hinar nýju fjármálareglur án efa mikinn þátt í þeim viðsnúningi. Sambandið leggur einnig á það áherslu að ríki, sveitarfélög og Alþingi vinni sameiginlega að því verkefni að skapa sveitarfélögunum stöðugt rekstrarumhverfi. Mikilvægt er því að horfa m.a. ávallt á ríki og sveitarfélög sem eina heild þegar litið er á hagræn og fjárhagsleg áhrif hagræðingartillagna. Sambandið telur að frumvörp til laga um opinber fjármál og um aðgerðir til þess að draga úr reglubyrði atvinnulífs og efla samkeppni feli í sér fyrirheit um bætt verklag við stjórn opinberra fjármála og vandaðra verklag við kostnaðarmat og undirbúning lagasetningar og væntir þess að eiga gott samstarf við ríkisstjórnina og Alþingi um frekari aðgerðir í sama tilgangi.