Dreifstýring og sameining sveitarfélaga

Plenum-lbr

Dagana 4. og 5 nóvember hittust framkvæmdastjórar evrópskra sveitar-félagasambanda í Brussel undir merkjum Evrópusamtaka sveitarfélaga og héraða (CEMR).  Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, sat fundinn. Meðal viðfangsefna á fundinum var umræða um dreifstýringu og sameiningu sveitarfélaga.

Fyrir utan hefðbundin stjórnarstörf fjölluðu framkvæmdastjórarnir m.a. um samstarf sveitarfélaga innbyrðis og við einkaaðila og áhrif nýrra evrópskra reglna um sérleyfi og  innkaupamál á slíkt samstarf. Nýjar innkaupareglur og sérleyfissamningareglur munu gilda á Íslandi á grundvelli EES-samningsins, brýnt er að tryggja að innleiðing reglnanna verði sem einföldust, regluverkið verði ekki „gullhúðað“  og komið sé í veg fyrir óþarfa stjórnsýslubyrðar fyrir sveitarfélög.

Á tímum niðurskurðar hefur samstarf sveitarfélaga víða verið nauðsynlegt til að hagræða og fjöldi sveitarfélaga í Evrópu deilir t.d. upplýsingatækni- og bókhaldskerfum, framkvæmdastjórn o.fl. eða þá eitt sveitarfélag annast þjónustu fyrir fjölda annarra.  Á Íslandi er ljóst að óháð sparnaði og hagræðingu þá hafa minnstu sveitarfélögin takmarkaða burði til að taka við flóknum verkefnum frá ríkinu, eða jafnvel til að taka þátt í flóknum samstarfsverkefnum með stærri sveitarfélögum.

Markmiðið að efla fjárfestingu, ná hagræðingu og nýta sérþekkingu

Kostir og gallar samstarfs sveitarfélaga við einkaaðila voru einnig til umfjöllunar. Markmið samstarfs af slíkum toga er að efla fjárfestingu, ná hagræðingu og nýta sérþekkingu einkageirans. Dæmi um slíkt eru t.d. samningar um opinberar byggingar, s.s. skóla, spítala, fangelsi, bókasöfn o.fl. Einkafyrirtækið reisir og rekur bygginguna en sveitarfélagið greiðir leigu en annast almannaþjónustuna í húsinu sjálft. Stundum virkar samstarfið prýðisvel en getur verið dýrt þar sem sveitarfélagið tekur áhættuna. Hætta er á að fjármál séu ógagnsæ og ef einkafyrirtækið verður gjaldþrota ber sveitarfélagið skaðann.

Á fundinum var einnig fjallað um umbætur á sveitarstjórnarstiginu í Evrópu, síaukna dreifstýringu og flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga. Sá böggull fylgir skammrifi að auknum skyldum fylgir ekki alls staðar fjármagn. Smærri sveitarfélög eiga á brattann að sækja en segja má að þau veiki sveitarstjórnarstigið í heild til að fást við stærri og flóknari verkefni. Þrýst er á sameiningu innan ESB, einkum vegna aukinnar áherslu á svæði þar sem stærri einingar eru betur í stakk búnar til að taka við styrkjum úr byggðasjóðum sambandsins. Sérstaklega eiga lítil sveitarfélög í nágrenni stórborga erfitt uppdráttar; þar vegur þrýstingur á sameiningu víða að sjálfstjórnarrétti þeirra og staðbundnu lýðræði.

dsc_0009