Sveitarstjórnarkosningar í Danmörku

DanmorkKosningÞann 19. nóvember fóru fram sveitarstjórnarkosningar í Danmörku. Fyrir kosningarnar stóðu danska sveitarfélagasambandið – KL, héraðasambandið – Danske Regioner og danska efnahags- og innanríkisráðuneytið fyrir átaki sem nefnt var Hugsaðu þig um áður en þú kýst ekki. Markmið átaksins var að auka kosningaþátttöku, en hún hefur farið lækkandi í sveitarstjórnarkosningum í Danmörku á undanförnum áratugum.

Átakinu var sérstaklega beint að ungum kjósendum, en þeir hafa sýnt lítinn áhuga á kosningum í Danmörku. Fengnir voru sex þekktir listamenn, sem höfða til unga fólksins, og gerðu þeir hver sitt myndbandið sem dreift var á samfélagsmiðlum á netinu og víðar. Fyrirtæki á almennum markaði tóku einnig þátt í átakinu, t.d. McDonalds, verslunarkeðjan Dansk Supermarked og ýmis fólksflutningafyrirtæki. Fyrirtækin skipulögðu kosningasamkomur og hvöttu starfsmenn sína og viðskiptavini til þess að nýta kosningaréttinn.

stemmebokseSveitarfélögin í Danmörku annast alla umsýslu með utankjörfundaratkvæðagreiðslum og flest þeirra voru með einhverjar aðgerðir til þess að auðvelda fólki að kjósa utan kjörfundar. Settir voru upp utankjörfundarbásar á stöðum þar sem búast mátti við fjölmenni, verslunarstöðum, veitingahúsum og samkomustöðum ungs fólks. Þó nokkur sveitarfélög settu upp utankjörfundaraðstöðu í bílum sem óku á milli staða. Danska kosningalöggjöfin heimilar fólki að kjósa utankjörfundar þó það verði heima á kjördag og eigi heimangengt, en utankjörfundaratkvæðagreiðslu lýkur þremur dögum fyrir kjördag. Utankjörfundaratkvæði voru að þessu sinni tvöfalt fleiri en við sveitarstjórnarkosningarnar 2009.

-StemKosningaþátttakan í kosningunum 19. nóvember var 71,9% og var því 6,1 %-stigi hærri en í kosningunum 2009 þegar kosningaþátttakan var 65,8% á landsvísu. Það þarf að fara allt aftur til ársins 1981 til þess að finna hærra hlutfall kosningaþátttöku. Undantekning frá þessu er þó árið 2001 þegar sveitarstjórnarkosningar og þingkosningar í Danmörku voru samtímis og þá var þátttakan 85%.

kommunevalgFormaður danska sveitarfélagasambandsins, Erik Nielsen, hefur lýst mikilli ánægju sinni með þessa auknu kosningaþátttöku og þakkar það m.a. átakinu Hugsaðu þig um áður en þú kýst ekki.

  • Til fróðleiks er hér tengill á auglýsingu sem miðar að því að fá ungt fólk til að taka þátt í sveitarstjórnarkosningunum í Danmörku.