Frumvarp um persónukjör

KjorkassiLagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum um kosningar til sveitarstjórna þar sem vægi persónukjörs er aukið frá því sem nú er. Innanríkisráðherra hefur þegar mælt fyrir frumvarpinu og því verið vísað til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.


Í frumvarpinu er lagt til að við bundnar hlutfallskosningar verði tekin upp persónukjörsaðferð sem notuð er við sveitarstjórnar- og fylkiskosningar í Noregi. Norska persónukjörsaðferðin er bæði einföld að gerð og í framkvæmd. Helsti kostur hennar er að ekki þarf að bylta núverandi kerfi hér á landi, sem kjósendur hafa búið við um langan tíma, þótt vissulega þurfi að aðlaga kerfið vegna fámennis samanborið við Noreg. Breytingin yrði fyrst og fremst sú að kjósendum gæfist kostur á að greiða einstökum frambjóðendum persónuatkvæði. Kjósendur munu því að miklu leyti ákvarða röð efstu manna, þar sem samanlögð persónuatkvæði hvers frambjóðanda, að teknu tilliti til atkvæðaálags, sem framboðum er heimilt að veita takmörkuðum fjölda frambjóðenda á lista sem þau bjóða fram, ráða endanlega röð hans á listanum. Jafnframt er í frumvarpinu lagt til að kjósendur fái heimild til þess að veita frambjóðendum á öðrum listum en listanum sem þeir kjósa persónuatkvæði samkvæmt nánar útfærðum skilyrðum í lagafrumvarpinu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a.:

 Hugmyndin um að auka persónukjör tengist almennum sjónarmiðum um aðhald kjósenda með stjórnmálasamtökum og aukinni þátttöku kjósenda í lýðræðislegu starfi. Erlendis hefur verið bent á að þetta aðhald kjósenda minnki með dvínandi kosningaþátttöku en að persónukjör, með svipuðum hætti og hér er lagt til, gæti dregið kjósendur aftur að kjörborðinu. Persónukjör væri þá fallið til að styrkja lýðræðislegt umboð kjörinna fulltrúa og endurspegla óskir fleiri kjósenda. Ef stjórnmálasamtök eða önnur framboð heimiluðu persónukjör, við framboð sín til sveitarstjórna, gætu þau haft áhrif á þróun fulltrúalýðræðis, því kjósendur hefðu þá aukin tækifæri til þess að velja ákveðna fulltrúa til setu í sveitarstjórnum.

Fulltrúar Sambands íslenskra sveitarfélaga komu að undirbúningi og gerð frumvarpsins og það hefur verið kynnt í stjórn sambandsins. Engin afstaða hefur verið tekin til frumvarpsins á vettvangi sambandsins en gert er ráð fyrir því að það verði sent öllum sveitarfélögum til formlegrar umsagnar innan tíðar.

Á vef Alþingis má nálgast frumvarpið og þær umræður sem fram fóru þegar mælt var fyrir því.
Á vef sambandsins má finna samantekt um persónukjörsaðferðir í öðrum norrænum ríkjum.