Kjaraviðræður við FG

HandabandKjaraviðræður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) við Félag grunnskólakennara (FG) hafa staðið yfir með hléum frá því í lok ágústmánaðar 2011. Kjaraviðræðurnar hafa verið vandasamt og yfirgripsmikið verkefni, sem byggst hefur á ýtarlegri greiningarvinnu og umræðu aðila. Samt sem áður er samningur milli aðila ekki enn í sjónmáli.

Samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur í viðræðum við Félag grunnskólakennara unnið á grundvelli fullnaðarumboðs frá sveitarfélögunum og  samkvæmt samningsmarkmiðum stjórnar  Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Í markmiðum sambandsins er megináherslan lögð á að:

  • færa vinnutímakafla kjarasamingsins nær því sem almennt gerist á vinnumarkaði
  • aðlaga vinnutímakaflann að breyttum grunnskólalögum, reglugerðum og nýrri aðalnámskrá
  • draga úr því verkefnaálagi sem kennarar upplifa með markvissari stjórnun og forgangsröðun
  • vinnutími kennara verði samfelldur og unnin á vinnustað undir yfirstjórn og í samvinnu við skólastjórnendur

Niðurstöður sameiginlegrar vinnu aðila í samningaferlinu gefa ágæta yfirsýn yfir þau vandamál sem vinnutímakafli kjarasamningsins skapar í vinnuumhverfi grunnskólakennara og fleiri atriði sem bæta má úr í skólastarfi. Mikilvægt er að vinnutímakafli kjarasamningsins mæti þörfum nútíma grunnskóla. Samningsaðilar hafa hins vegar afar ólíka sýn á hvernig nálgast skuli lausn þeirra vandamála sem uppi  eru. Það er mat SNS að aukið verkefnaálag á kennara megi skýra að töluverðu leyti með því hversu ósamrýmanleg framkvæmd þeirrar skólastefnu er, sem sveitarfélögin vinna eftir þ.e. „Skóli án aðgreiningar“, við gildandi
vinnutímakafla kjarasamnings kennara.

Kjarasamningur grunnskólakennara hefur þá sérstöðu meðal kjarasamninga Sambands íslenskra sveitarfélaga að í honum er nánast hver mínúta í dagvinnu kennara skipulögð með miðlægum hætti, merkt tilteknum verkþáttum og öðrum ekki. Raunveruleikinn er hins vegar sá að þrátt fyrir að grunnskólakennarar sinni sömu grunnverkefnum þá vinna þeir, sem háskólamenntaðir sérfræðingar, mjög sjálfstætt og því þarf kjarasamningurinn að mæta einstaklingsbundnum breytileika þeirra, þörfum mismunandi kennslugreina, skóla og  nemenda. Það er mat SNS að það henti ekki nútíma skólastarfi að skipulag vinnu starfsmanna sé ákveðið í smáatriðum í miðlægum kjarasamningi. Markmið sambandsins stefna í þá átt að auka sveigjanleika vinnutímakaflans og færa daglegt skipulag og stjórn skólanna heim á vettvang þeirra.

SN hefur í viðræðum við FG lagt fram tillögur að breyttum vinnutímakafla og einnig bent á ýmsar aðferðir og leiðir til að bæta vinnuumhverfi kennara og mæta auknu álagi í störfum þeirra. Mikilvægt er að  forgangsraða verkefnum kennara  og auka stjórnunarheimildir skólastjóra í kjarasamningi. SNS telur að það sé hvorki raunhæft né æskilegt að draga úr kennsluskyldu kennara. Þvert á móti verði að leggja áherslu á að kennslan er meginþátturinn í starfi hvers kennara og því rík ástæða til þess að greina þau verkefni sem bæst hafa við hefðbundin störf kennara á undanförnum árum, m.a. í kjölfar innleiðingar „Skóla án aðgreiningar“. Sú greining þarf að liggja fyrir sem grundvöllur að vinnu við nýjan vinnutímakafla kjarasamnings grunnskólakennara.

Samningsaðilar hafa verið mjög meðvitaðir um þann ágreining sem uppi er um leiðir til lausnar kjaradeilunnar  og óhætt að segja að fram að þessu hafi báðar samninganefndir lagt sig fram um að ræða vandamálin af fagmennsku án þess að setja hvor annarri afarkosti. Samningsaðilar vísuðu kjaradeilu sinni sameiginlega til ríkissáttasemjara þann 3. desember sl. og hafa viðræður verið undir hans stjórn frá þeim tíma.