Ávarp

Husin-i-baenum-032Eitt af meginhlutverkum Sambands íslenskra sveitarfélaga er að sinna upplýsinga- og útgáfustarfsemi fyrir sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga og hefur svo verið frá stofnun sambandsins árið 1945. Í þessum tilgangi hefur sambandið m.a. gefið út tímaritið Sveitarstjórnarmál. Þá hefur sambandið haldið úti samskipta- og upplýsingavef á netinu frá árinu 1998. Miklar breytingar og ör þróun hafa átt sér stað á síðustu árum í útgáfumálum og upplýsingatækni. Miðlun upplýsinga og fræðsla hefur verið að færast frá hefðbundnum prentmiðlum, sem rekja má aftur til miðrar 15. aldar, og yfir í miðlun upplýsinga með rafrænum hætti.

Á síðasta ári var gerð könnun meðal sveitarstjórnarmanna og valinna hópa starfsmanna sveitarfélaga um útgáfu- og upplýsingamál sambandsins. Alls svöruðu könnuninni um 220 manns og var niðurstaðan afgerandi um þá spurningu hvort menn hefðu áhuga á því að fá rafrænt fréttabréf frá sambandinu. Um 80% svarenda höfðu áhuga á því.

Með TÍÐINDUM af vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga er hleypt  af stokk-unum tilraun sem er ætlað að auka upp-lýsingagjöf um starfsemi sambandsins.  Er stefnt að því að fréttabréfið komi út mánaðarlega á rafrænu formi út þetta ár, en framhald þessarar útgáfu veltur að sjálfsögðu á viðtökum sveitarstjórnarmanna og starfsmanna sveitarfélaga. Þetta rafræna fréttabréf mun flytja tíðindi af þeim verkefnum sem efst eru á baugi í starfsemi sambandsins og starfsmenn þess eru að fást við á hverjum tíma.

Áfram verður heimasíða sambandsins meginvettvangur fyrir upplýsingamiðlun og fréttir frá sambandinu. Eru sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga hvattir til þess að gerast áskrifendur að fréttum á heimasíðunni, en þær berast þá um leið og þær birtast þar. Gert er ráð fyrir því að áhugaverðar fréttir af heimasíðunni verði birtar að nýju í rafræna fréttabréfinu, sem verður sent með tölvupósti til allra sveitarstjórnarmanna og valinna hópa starfsmanna sveitarfélaga.

Síðar á árinu er stefnt að því að sveitarstjórnarmenn og starfsmenn sveitarfélaga verði spurðir álits á þessari tilraunarútgáfu og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um það hvort fréttabréfið verður gefið út áfram og hvort einhverjar breytingar verða gerðar á útgáfu tímaritsins Sveitarstjórnarmála.

Allar athugasemdir og ábendingar eru vel þegnar og eru lesendur TÍÐINDANNA hvattir til þess að láta til sín heyra. Viðbrögð lesenda eru mikilvæg við þróun fréttabréfsins.

Magnús Karel Hannesson
sviðsstjóri rekstrar- og útgáfusviðs