22. des. 2016

Yfirlýsing frá samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga

Því hefur verið haldið fram á opinberum vettvangi af hálfu starfandi formanns Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) að samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS) beiti aflsmunar til að halda niðri launum tónlistarkennara. Hið rétta er að FT hefur ítrekað verið boðinn kjarasamningur sem tryggir tónlistarkennurum sömu grunnlaun og sambærilegum starfsheitum innan annarra kennarafélaga sem semja við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Staðreyndir málsins eru að grunnlaun tónlistarkennara eru þau sömu og annarra kennara en önnur launamyndun innan kjarasamninga kennarafélaganna er mismunandi.  Það jafnast þó engu að síður út þar sem meðaldagvinnulaun tónlistarkennara eru hin sömu og í tilfelli grunn- og leikskólakennara.  SNS hefur ítrekað lagt fram gögn við samningaborðið sem staðfesta þetta. 

Þá ber að geta þess að Samband íslenskra sveitarfélaga er með kjarasamninga við tvö stéttarfélög tónlistarkennara og stjórnenda í tónlistarskólum.  Annarsvegar er um að ræða FT og hinsvegar Félag íslenskra hljómlistarmanna (FÍH).  Kjarasamingur var gerður við FÍH í febrúar sl. og var hann samþykktur með yfir 92% greiddra atkvæða.  Eins og gefur að skilja getur Samband íslenskra sveitarfélaga ekki gert mismunandi kjarasamninga við þessi tvö stéttarfélög sem hefði þær afleiðingar að til yrði óásættanlegur launamunur á milli kennara sem starfa hlið við hlið í tónlistarskólum landsins. 

Staðreyndin er sú að kröfur FT ganga út á það að tónlistarkennarar og stjórnendur innan FT njóti hærri kjara en sambærileg störf innan Félags grunnskólakennara, Félags leikskólakennara og Félags íslenskra hljómlistarmanna.  Á það getur samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga ekki fallist.

Forysta FT hafnaði nú síðdegis samningstilboði SNS frá því fyrr í dag. SNS harmar að ekki sé hægt að koma réttmætum og löngu tímabærum launahækkunum til þessa eina hóps launþega sem enn er ósamið er við hjá sveitarfélögunum.