Yfir 300 manns mættu á Nýsköpunardag hins opinbera sem Stafræn sveitarfélög í samstarfi við Ríkiskaup stóðu fyrir á Hilton Reykjavík Nordica í gær.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, fór yfir áskoranir samfélagsins þegar kemur að gervigreind ásamt því að fjalla um áhersluverkefni sín á því sviði í opnunarávarpi ráðstefnunnar.
Upptökur frá Nýsköpunardeginum má finna á vefsíðu ráðstefnunnar.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, opnaði dagskránna eftir hádegi og fjallaði um mikilvægi þróunar, nýsköpunar og samvinnu innan opinberrar stjórnsýslu. Heiða sagði það vera verkefni hins opinbera að nýta tæknina rétt og vel með það að markmiði af efla stjórnsýsluna. Tækifærin sem gervigreind byði upp á til að þjónusta íbúa sveitarfélaga betur og hagræða í rekstri hins opinbera væru fjölmörg. Gríðarlega mikilvægt sé að ríki og sveitarfélög vinni þétt saman en undanfarið hafa átt sér stað góð og gagnleg samtöl milli ríkis og sveitarfélaga um enn frekara samstarf í þessum efnum. Nú þegar eru í farvatninu mörg frábær stafræn verkefni sem eru jafnvel komin af stað.
Fjöldamörg áhugaverð erindi voru á dagskrá og voru fyrirlestarar meðal annars frá Google, Microsoft og Nvidia. Þá voru fulltrúar Akraneskaupstaðar, Mosfellsbæjar og Reykjavíkurborgar með erindi um stafræn verkefni innan þessara sveitarfélaga. Erindum á Nýsköpunardeginum er ætlað að veita opinberum kaupendum innblástur og hvetja til markvissrar hagnýtingar lausna sem byggja á gervigreind til að efla opinbera þjónustu.