Vorfundur Grunns 2019

Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, hélt sinn árlega vorfund á Siglufirði dagana 6.-8. maí 2019. Á fundinum var meðal annars fjallað um menntun allra barna og var sérstök áhersla á málefni barna af erlendum uppruna. Kynnt var samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga um stöðumat fyrir börn af erlendum uppruna sem eru nýkomin til landsins og eru að hefja skólagöngu. Gert er ráð fyrir að öll sveitarfélög geti nýtt sér verkefnið frá og með haustinu vegna grunnskólans en unnið er að þýðingu sambærilegs efnis fyrir leikskólastigið.

Grunnur, félag fræðslustjóra og stjórnenda skólaskrifstofa, hélt sinn árlega vorfund á Siglufirði dagana 6.-8. maí 2019. Á fundinum var meðal annars fjallað um menntun allra barna og var sérstök áhersla á málefni barna af erlendum uppruna. Kynnt var samstarfsverkefni þriggja sveitarfélaga um stöðumat fyrir börn af erlendum uppruna sem eru nýkomin til landsins og eru að hefja skólagöngu. Gert er ráð fyrir að öll sveitarfélög geti nýtt sér verkefnið frá og með haustinu vegna grunnskólans en unnið er að þýðingu sambærilegs efnis fyrir leikskólastigið.

Rætt var um mikilvægi samvinnu og þverfaglegs samstarfs ólíkra fagstétta til dæmis félags-, fræðslu- og frístundaþjónustu, heilsugæslu og skóla. Markmiðið er að auka lífsgæði barna, unglinga og fjölskyldna þeirra með því að einfalda og flýta fyrir aðstoð til barna og foreldra, samhliða því að vera stuðningur fyrir starfsfólk skóla og samhæfa aðgerðir. Kynntar voru tvær nálganir við að efla stuðning og þjónustu við börn í leik- og grunnskólum, Brúin í Hafnarfirði og Austurlandslíkanið.

Umræða var um úthlutun fjármagns til skóla. Til að tryggja góðan árangur af framkvæmd markaðrar stefnu um menntun fyrir alla þarf að taka upp sveigjanlegar reglur um ráðstöfun fjármuna sem auka möguleika stjórnenda og kennara á því að þróa skólastarf og kennsluhætti sem mæta þörfum allra nemenda. Áhersla var lögð á að úthlutun fjármagns vegna barna með sérþarfir verði endurskoðuð og að greining verði ekki lengur talin forsenda úthlutunar. Að greiningar eigi mun frekar að vera leið til að auðvelda kennurum og starfsfólki skóla að skapa námsaðstæður og umhverfi fyrir nemendur þannig að þeir megi þroskast og dafna í skólanum og ná sem mestum árangri.

Farið var yfir útfærslu og fyrirkomulag aðgerða mennta- og menningarmálaráðherra sem kynntar voru nýverið og miða að því að auka nýliðun í kennarastétt, til dæmis með starfsnámsári og námsstyrkjum. Fundarmenn voru sammála um að samstillt átak þarf að eiga sér stað á komandi árum til að laða að kennara og kennaranema svo viðhalda megi góðu skólastarfi á Íslandi. Það felst meðal annars í öflugri starfsþróun kennara og skólastjórnenda, betri tengingu kennaranema og kennara kennaramenntunarstofnana við vettvang, auknum stuðningi við nýútskrifaðra kennara og einnig stuðning við starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn.