Virðisaukaskattur endurgreiddur vegna vinnu við lóðaframkvæmdir

Yfirskattanefnd hefur fallist á kröfu sveitarfélags um endurgreiðslu á virðisaukaskatti af vinnu manna við framkvæmdir á lóð húsnæðis í eigu sveitarfélagsins.

Ríkisskattstjóri hafði áður hafnað umsókninni um endurgreiðslu virðisaukaskattsins.

Sveitarfélög eru hvött til þess að yfirfara framkvæmdir sínar frá 1. mars 2020 allt 31. desember 2021 og sækja um endurgreiðslur á virðisaukaskatti á framkvæmdum á lóð húsnæðis í eigu sveitarfélags sem og öðrum endurgreiðsluhæfum framkvæmdum. Vakin er athygli á því að hægt er að sækja um endurgreiðslu allt að 6 árum frá framkvæmdum en þó eiga sveitarfélög eingöngu endurgreiðslurétt vegna framkvæmda frá 1. mars 2020 til 31. desember 2021. Sambandið hvetur sveitarfélög að sækja um endurgreiðslu við fyrsta tækifæri. 

Nánar um úrskurðinn

Í úrskurði yfirskattanefndar kemur fram að deilan hafi snúist um það hvort kærandi, sem var sveitarfélag, ætti rétt á endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við framkvæmdir á lóð húsnæðis kæranda. Ríkisskattstjóri leit svo á að þar sem sérstaklega væri tekið fram í reglugerð að með hugtakinu húsnæði væri átt við „byggingu með veggjum og þaki“ kæmi endurgreiðsla virðisaukaskatts ekki til álita vegna lóðaframkvæmda. Yfirskattanefnd rakti í úrskurði sínum viðeigandi lagaákvæði um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við húsnæði sveitarfélaga og taldi að skilgreiningar í reglugerðum, sem settar hefðu verið á grundvelli laganna, bæru ekki með sér neinn þann merkingarmun á hugtakinu „húsnæði“ sem máli skipti. Var fallist á umkrafða endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Sveitarfélagið, sem ekki er nefnt á nafn í úrskurðinum, óskaði eftir endurgreiðslunni á grundvelli átaksins Allir vinna sem felst í endurgreiðslu á virðisaukaskatti vinnuliðs þegar kemur að ýmsum framkvæmdum. Meðal þess sem sveitarfélagið óskaði eftir endurgreiðslu á var endurnýjun á girðingu við leikskóla, verkstæðisvinnu og hellu- og túnþökugerð. Sérstaklega var fjallað um síðast talda atriðið og það hvort það teldist til vinnu manna við endurbætur eða viðhald á „öðru húsnæði“ eins og það er skilgreint í reglugerð.

Yfirskattanefnd rekur nokkuð ítarlega í úrskurði sínum þau lagaákvæði er varða endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu við húsnæði sveitarfélaga og komst að þeirri niðurstöðu að þær skilgreiningar í reglugerðum, sem settar hefðu verið á grundvelli laganna, bæru ekki með sér neinn þann merkingarmun á hugtakinu „húsnæði“ sem máli skipti. Því hafi verið fallist á kröfu sveitarfélagsins um endurgreiðslu virðisaukaskatts.