Vinnustofa „Borgað þegar hent er“

Um miðjan apríl var efnt til fimm klukkustunda vinnustofu í samvinnu umbreytingateymis sambands íslenskra sveitarfélaga og verkefnisstjórnar Borgað þegar hent er.

Fimm klst. vinnustofa var haldin af Sambandi íslenskra sveitarfélaga í tengslum við verkefnið ,,Innleiðing Borgað þegar hent er kerfa fyrir meðhöndlun úrgangs“ sem sambandið hefur staðið fyrir síðan í mars 2022.  

Vinnustofan var svokölluð uppgötvunarvinnustofa „discovery workshop“ í notendamiðaðri þjónustuhönnun þar sem  greindar eru þarfir notanda og skoðaðir möguleikar til einföldunar verklags og nýtingu tækni við hönnun ferlisins.  Virðismikið efni varð til á vinnustofunni sem nýtt verður í áframhaldandi vinnu við að styðja sveitarfélögin í að innleiða Borgað þegar hent er kerfi.  

Tilgangur vinnustofunnar var að skoða hvort og þá hvernig nýta mætti stafrænar lausnir til að innleiða lagabreytingar sem komu til framkvæmda 1. janúar sl. vegna innleiðingar hringrásarhagkerfis. Samkvæmt þeim er sveitarfélögum gert að koma því þannig fyrir að innheimta fyrir meðhöndlun úrgangs (sorphirðugjöld) verði sem næst raunkostnaði fyrir meðhöndlun úrgangs niður á hvern aðila. Fast gjald, sem flest sveitarfélög hafa innheimt, skal takmarkast við 50% til ársins 2025 og 25% eftir það. Þessar breytingar þýða að flest sveitarfélög þurfa að aðlaga gjaldskrár sínar og innheimtukerfi. Sveitarfélög þurfa að taka skref frá því að nota kerfi sem innheimtir fast gjald, í að nota innheimtukerfi sem er sniðið að því magni og tegund úrgangs sem hver og einn lætur frá sér.

Þátttakendur vinnustofunnar voru frá hagsmunaraðilum verkefnisins, þar á meðal var starfsfólk af fjármála- og umhverfissviði sex sveitarfélaga og starfsfólk frá Stafrænu Íslandi.