Vindorkufundur sveitarfélaga

Vindorka gegnir sífellt stærra hlutverki fyrir orkuframleiðslu í heiminum sem græn og endurnýjanleg orkuauðlind og hefur vindmyllum að sama skapi farið ört fjölgandi í landslagi margra landa. Þó ekki hér á landi, þar sem þessi þróun hefur vart látið á sér kræla eða allt þar til nýlega og virðist áhugi nú fara vaxandi. Við það hafa ýmsar spurningar vaknað um hvort, hvar og hvernig virkja megi þennan orkugjafa svo vel sé. Til að ræða stöðu þessara mála hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök orkusveitarfélaga boðað til málþings um vindorku og skattlagningu orkumannvirkja þann 8. júní nk. 

Graenar-vindmyllur-2Vindorka gegnir sífellt stærra hlutverki fyrir orkuframleiðslu í heiminum sem græn og endurnýjanleg orkuauðlind og hefur vindmyllum að sama skapi farið ört fjölgandi í landslagi margra landa. Þó ekki hér á landi, þar sem þessi þróun hefur vart látið á sér kræla eða allt þar til nýlega og virðist áhugi nú fara vaxandi. Við það hafa ýmsar spurningar vaknað um hvort, hvar og hvernig virkja megi þennan orkugjafa svo vel sé.

Til að ræða stöðu þessara mála hafa Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök orkusveitarfélaga boðað til málþings þann 8. júní nk. um vindorku, orkumannvirki og skattlagningu þeirra. 

Málþingið hefst á inngangserindi Ketils Sigurjónssonar, ráðgjafa, um stöðu vindorkunnar í nútíð og framtíð. Því næst fjallar Birta Kristín Helgadóttir, umhverfis- og orkufræðingur hjá Eflu, um vindorku í aðalskipulagi sveitarfélaga, Auður Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, segir frá stefnu- og leiðbeiningarriti samtakanna um vindorku og Guðjón Bragason, sviðsstjóri hjá sambandi sveitarfélaga, segir frá löggjöf sem er í smíðum vegna vindorkuvirkjunar.

Sjónarmiðum sveitarfélaga verða jafnframt gerð sérstök skil. Ágúst Sigurðsson, sveitarstjóri í Rangárþingi ytra, og Kristinn Jónasson, bæjarstjóri í Snæfellsbæ, rýna vindorkumál út frá skipulagsmálum sveitarfélaga og Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Elín Líndal, sveitarstjórnarfulltrúi í Húnaþingi vestra, velta fyrir sér afstöðu Landverndar eins og hún birtist í stefnu- og leiðbeiningarriti samtakanna.

Um skattlagningu orkumannvirkja fjalla Stefán Bogi Sveinsson, formaður Samtaka orkusveitarfélaga, og Ingi Þór Finnsson, deildarstjóri mats- og hagdeildar hjá Þjóðskrá Íslands, og stiklar sá síðarnefndi á hugsanlegum matsaðferðum til skattlagningar.

Guðlaugur Þórarinsson, forstöðumaður á þróunarsviði Landsvirkjunar, slær svo botninn í málþingið með erindi sínu um undirbúning vindorkugarða.

Málþingið fer fram, eins og áður segir, föstudaginn 8. júní nk., á Grand hóteli, kl. 12:30 til 16:45. Ráðstefnugestum býðst jafnframt hádegisverður frá kl. 12:00 og fram að málþingi.

Þess má svo geta að fyrir hádegi, eða kl. 10:00–12:00, er á Grand hóteli annar viðburður sem tengist sveitarfélögum, en þar verður málþing og verðlaunaafhending vegna nýsköpunar í opinberri þjónustu og stjórnsýslu.

Dagskrá og skráning