Heildstæð nálgun, samvinna kerfa og samfella í þjónustu verða leiðarstefin í endurhæfingu fólks samkvæmt viljayfirlýsingu sem hefur verið undirrituð.
Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, Huld Magnúsdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar, Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, Vigdís Jónsdóttir, forstjóri VIRK, og Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins skrifuðu undir viljayfirlýsinguna. Einstaklingum í endurhæfingu skal markvisst fylgt á milli þjónustukerfa þurfi þeir á þjónustu fleiri en eins kerfis að halda og skýrt verður hvernig ábyrgð á þjónustunni færist á milli kerfa.
Í framhaldi af yfirlýsingunni hefst vinna við gerð samnings um framtíðarfyrirkomulag um heildstæða nálgun og samþættingu þjónustu í tengslum við endurhæfingu einstaklinga hér á landi. Stefnt er því að samningurinn um framtíðarfyrirkomulagið verði undirritaður í apríl nk.
Samhliða þessu hafa Tryggingastofnun, Vinnumálastofnun, VIRK, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og velferðarsvið Reykjavíkurborgar lýst yfir vilja til að vinna saman að sérstöku undirbúningsverkefni er varðar samvinnu þjónustukerfa í tengslum við endurhæfingu einstaklinga. Tilgangur undirbúningsverkefnisins er að fá hlutaðeigandi þjónustukerfi til að vinna saman í sérstökum samhæfingarteymum þar sem áhersla er lögð á heildstæða nálgun miðað við þarfir hvers og eins og að endurhæfingin verði samfelld.
Þjónustukerfin geta meðal annars vísað málum einstaklinga inn í samhæfingarteymin þegar vafi leikur á því hvers konar þjónusta gagnist eða þegar óskað er eftir því að skoðað verði sérstaklega hvernig kerfin geti í sameiningu veitt einstaklingi heildstæða þjónustu í samræmi við þarfir viðkomandi á hverjum tíma.