Víðtækur stuðningur við norræn sveitarfélög

Nú eru um sjö mánuðir síðan að fyrsta tilfelli Covid-19 veirunnar var greint á Íslandi. Ekki þarf að fjölyrða um þau áhrif sem heimsfaraldurinn hefur haft á íslenskt samfélag, en nefna má verulega aukið atvinnuleysi, sögulegan samdrátt í landsframleiðslu, tekjutap og kostnaðarauka hins opinbera.

Nefnd ríkis og sveitarfélaga á vegum samgönguráðuneytisins hefur áætlað að tekjutap A-hluta sveitarfélaga verði um 20 ma.kr. í ár. Sveitarfélög veita mikilvæga lög boðna grunnþjónustu sem skal veitt þrátt fyrir gríðarlegan tekju brest, ólíkt einkafyrirtækjum sem hafa þó val um að rifa seglin þegar illa árar.

Á vormánuðum og snemma í haust aflaði hag- og upplýsingasvið sambandsins upplýsinga frá systursamtökum sínum annars staðar á Norðurlöndum um aðkomu ríkisvaldsins að þeim risavaxna vanda sem norræn sveitarfélög standa einnig frammi fyrir. Hlekk á minnisblöð sem lögð hafa verið fyrir stjórn sambandsins fylgir hér að neðan.

Þessar kannanir leiða í ljós að sveitarfélögum annars staðar á Norðurlöndum verður bætt allt eða næstum allt það efnahagslega áfall sem af veirunni hlýst. Þó einhver munur sé á útfærslu milli landa má flokka víðtækan stuðning ríkissjóða við sveitarfélög með grófum hætti í þrjá flokka.

  • Í fyrsta lagi er um að ræða endurgreiðslu á beinum kostnaði vegna veirunnar, t.d. vegna aukinna  þrifa og aukins álags á heilsugæslu o.fl.
  • Í öðru lagi er tekjufall sveitarfélaga bætt að hluta eða að öllu leyti. Hér er bæði um að ræða bæði lækkun skatttekna og þjónustutekna, Almenn framlög vegna lægri skatttekna eru gjarnan miðuð við höfðatölu. Missir þjónustutekna vegna lokunar leikskóla og frístundaheimila í vor er endurgreiddur. Þá hefur sveitarfélögum í öllum ríkjunum verið bætt tekjutap almenningssamgangna - að fullu eða því sem næst .
  • Loks er um að ræða framlög til að auka viðhald og örva fjárfestingar á vegum sveitarfélaga.

Rétt er nefna að hlutur sveitarfélaga annars staðar á Norðurlöndum í starfsemi hins opinbera er um 2/3 á móti rösklega 1/3 hluta hér á landi. Munar þar mestu um að í öðrum norrænum ríkjum eru verkefni á borð við heilsugæslu, framhaldsskóla og öldrunarþjónustu að fullu á höndum þeirra.

Þá er einnig rétt að geta þess að samskipti sveitarfélagastigsins við ríkisvaldið er með ýmsum hætti á Norðurlöndunum og að auki er munur á fjármögnun þeirra. Ísland sker sig úr að því leyti hversu stór hluti tekna sveitarfélaga eru af sköttum sem þau leggja á. Danska kerfið er á hinum endanum er varðar fjármögnun með eigin skattlagningu. Sænsk sveitarfélög reiða sig einnig að mjög stórum hluta á eigin skattlagningu og hafa fullt frelsi til að ákveða útsvarsprósentu.

Norrænu ríkisstjórnirnar standa með sveitarfélögunum og þeirri þjónustu sem þau veita

Eins og fyrr greinir er rauði þráðurinn í viðbrögðum norrænna ríkja að standa með sveitarfélögunum og þeirri þjónustu sem þau veita. Þrátt fyrir að umfang sveitarstjórnarstigsins á Íslandi sé nokkru minna en í nágrannalöndunum er ljóst að efnahagsáfallið er verulegt sem gerir þeim erfitt um vik að sinna mikilvægri lög boðinni þjónustu við sína íbúa. Hér er ekki síst átt við mikilvægi menntastofnana eins og leik- og grunnskóla, en einnig félagsþjónustu sem styður við viðkvæmustu hópa samfélagsins s.s. börn og unglinga, fatlað fólk, aldrað fólk, flóttafólk og fleiri hópa. Því er ákaflega mikilvægt að ríkið styðji vel við bakið á sveitarfélögum hér á landi þannig að þau geti veitt nauðsynlega og lög boðna grunnþjónustu svo ekki verði höggið þar sem síst skyldi.

Ástæða er til að fagna ný gerðu samkomulagi við ríkið um fjármál sveitarfélaga og ýmissa verkefna sem þar er að finna. Enn frekar er fagnaðarefni að tilkynnt hefur verið að ríkið muni leggja sveitarfélögum til fjármagn í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, til fjárhagsaðstoðar og vegna sveitarfélaga sem höllum fæti standa. Framlenging verkefnisins „Allir vinna” er fagnaðarefni sem og lækkun tryggingargjalds sem sveitarfélög munu njóta. Engu að síður er ljóst að töluvert vantar upp á að íslensk sveitarfélög fái jafn mikinn stuðning frá ríkisvaldinu og sveitarfélög annars staðar á Norðurlöndum hafa notið.