Viðræður hafnar um fráveitumálin við Mývatn

Ríkisstjórnin fól nýlega fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti að ganga til viðræðna við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um fráveitumál við Mývatn. Jafnframt verður umhverfisvöktun efld, einkum á innstreymi næringarefna í vatnið og áhrifum þess á lífríki.

MyvatnRíkisstjórnin fól nýlega fjármála- og efnahagsráðuneyti og umhverfis- og auðlindaráðuneyti að ganga til viðræðna við sveitarstjórn Skútustaðahrepps um fráveitumál við Mývatn.

Jafnframt verður umhverfisvöktun efld, einkum á innstreymi næringarefna í vatnið og áhrifum þess á lífríki.

Fráveitumál við Mývatn hafa verið í deiglunni um nokkra hríð, en samkvæmt verkfræðilegri úttekt sem umhverfis- og auðlindaráðuneytið hefur látið gera, hleypur kostnaður vegna nauðsynlegra úrbóta á fráveitukerfi staðarins á 700 til 880 m.kr.

Í ljósi aðstæðna, sem eru að mörgu leyti óvenjulegar við Mývatn, samþykkti ríkisstjórnin skömmu fyrir jól aðkomu að málinu, þrátt fyrir þá almennu lagareglu að sveitarfélög beri straum af rekstri veitna innan sinna vébanda. 

Var af hálfu ríkisstjórnarinnar m.a. litið til þess, að strangari kröfur eru gerðar í fráveitumálum við Mývatn en almennt gerist og hefur talsvert verið þrýst á um skjótar úrbætur, ekki hvað síst í ljósi þess að um fjölsóttan ferðamannastað er að ræða.

Þá nýtur svæðið sérstakrar verndar í lögum og einnig samkvæmt Ramsarsamningnum svonefnda, sem Ísland á aðild að og nær til verndunar votlendis með álþjóðlegt gildi einkum fyrir fuglalíf.

Á sínum tíma óskaði sveitarfélagið, ásamt fleiri aðilum, eftir aðkomu ríkisvaldsins að málinu, með þeim sanngirnisrökum að það sé fámennt og eigi erfitt með að ráðast í jafn umfangsmiklar framkvæmdir og hér um ræðir.

Kröfur eru gerðar í reglugerð til sveitarstjórnar og rekstraraðila við Mývatn um ítarlega hreinsun á skólpi frá þéttbýli. Sveitarfélagið gerði í framhaldinu úrbótaáætlun vegna málsins með fyrirvara um fjármögnun og mögulega aðkomu ríkisvaldsins.