Viðbót við merkingar fyrir flokkun úrgangs

Þriðja útgáfa handbókar um flokkunarmerkingar fyrir Ísland hefur verið samþykkt af norrænu samtökunum EUPicto og gefin út.

Ísland hefur í samstarfi við Danmörk og Svíþjóð tekið upp nýja merkingu fyrir flokkun á plastumbúðum við heimili. Aðrar merkingar fyrir flokkun á plasti tóku breytingum samhliða og innleitt er nýtt merki fyrir hart plast til notkunnar á grenndar- og söfnunarstöðvum. Einnig er að frumkvæði Íslands komið merki fyrir kertavax og járnbundna steypu í norrænu merkjaflóruna. Kerfið fyrir flokkun skiptist í tvennt eftir því hvort um er að ræða söfnun úrgangs frá heimilum eða móttöku á grenndar- og söfnunarstöðvum. Merkingar sem nýtast vegna söfnunar frá heimilum nýtast einnig við söfnun á sambærilegum úrgangi frá rekstaraðilum.

Í lögum 103/2021 vegna innleiðingu hringrásarhagkerfis er frá síðustu áramótum gerð krafa um að við meðhöndlun úrgangs skuli nota samræmdu merkingar fyrir a.m.k. eftirfarandi úrgangstegundir: pappír og pappa, málma, plast, gler, lífúrgang, textíl og spilliefni. Í drögum að reglugerð um meðhöndlun úrgangs sem birtist í Samráðsgátt stjórnvalda 8. desember sl. og er enn í vinnslu er gert ráð fyrir að nánari leiðbeiningar um notkun samræmdu merkinganna komi fram.

Samband íslenskra sveitarfélaga á fulltrúa í norrænu samtökunum EUPicto sem eiga og reka norræna merkjakerfið. Merkingarnar hafa það markmið að auðvelda notendum að flokka eins og til er ætlast til á öllum Norðurlöndunum og stuðla þannig að hreinni úrgangsstraumum og aukinni endurnotkun og endurvinnslu. Samræmda merkjakerfið byggir í grunnin á dönskum merkingum sem gefið var út árið 2017 með góðum árangri. Merkingarnar voru innleiddar á Íslandi í nóvember 2020. FENÚR heldur utan um notkun og innleiðingu merkjanna hérlendis en það eru félagasamtök sem stofnuð voru árið 1998 sem standa fyrir faglegri umræðu um úrgangsstjórnun og hringrásarhagkerfið.

Samræmt merkjakerfi auðveldar alla flokkun og einfaldar meðhöndlun eftir söfnun. Merkingarnar er hægt að nálgast gjaldfrjálst á vefsíðu FENÚR.