Við þurfum að hlusta á unga fólkið

Sá hópur sem gerir mestar kröfur til okkar er unga fólkið og á þau verðum við að hlusta.

Tengiliðahópur Samráðsvettvangs sveitarfélaganna um heimsmarkmiðin og loftslagsmál kom saman til fyrsta fundar í Kópavogi í morgun. Vettvangurinn var stofnaður 19. júní sl. en tilgangur hans er að efla og styrkja sveitarfélögin til samstöðu og samstarfs um loftslagsmál og sjálfbæra þróun.

Aldís Hafsteinsdóttir, formaður sambandsins, hóf setningarræðu sína á að fagna því hversu margir væru mættir á fundinn en hann sátu 28 fulltrúar auk þess sem 15 tengdust fundinum í gegnum Skype.

Áskoranir samtímans á sviði loftslagsmála og sjálfbærrar þróunar eru miklar og sveitarfélög gegna lykilhlutverki þegar kemur að því að mæta þeim. Ákall samfélagsins um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og stíga stóru skrefin í átt að sjálfbærri þróun er hávært. Sá hópur sem gerir mestar kröfur til okkar er unga fólkið og á þau verðum við að hlusta. Sveitarfélögin eru að hlusta. Sveitarfélögin mega og vilja ekki sitja eftir í umræðunni, sagði Aldís m.a. í ræðu sinni.

Það er óþarfi að hvert sveitarfélag þurfi að reka sig á sömu hlutina

Aldís lagði áherslu á samvinnu sveitarfélaga í ræðu sinni og sagði að þau sveitarfélög sem hafi stigið stór skref í loftslagsmálum og heimsmarkmiðunum hafi sýnt vilja til að leyfa öðrum sveitarfélögum, sem skemmra eru á veg komin, að njóta góðs að  þeirri vinnu sem þau hafa þegar unnið. "Það er óþarfi að hvert sveitarfélag þurfi að reka sig á sömu hlutina."