Föstudaginn 16. apríl sl. var haldinn fundur fyrir tengiliði í Samstarfvettvangi sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aðalefni fundarins var að kynna væntanlega verkfærakistu fyrir sveitarfélög um innleiðingu heimsmarkmiðanna á sveitarstjórnarstigi og þróun sameiginlegra mælikvarða fyrir þau.
Samband íslenskra sveitarfélaga hefur umsjón með samstarfsvettvangi sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem varð til á árinu 2019. Yfir 50 sveitarfélög eru aðilar að samstarfsvettvanginum og hafa tilnefnt tengiliði við hann. Sambandið stendur reglulega fyrir fundum þessara tengiliða og hefur skapast sú hefð að halda til skiptist fundi um loftslagsmál og heimsmarkmiðin.
Þann 16. apríl sl. var komið að heimsmarkmiðunum. Aðalefni fundarins var að kynna vinnu sambandsins og Hagstofu Íslands að þróun mælikvarða fyrir sveitarfélög um framgang heimsmarkmiðanna og verkfærakistu fyrir sveitarfélög um heimsmarkmiðin sem er á lokastigi en hún er unnin á vegum verkefnisstjórnar forsætisráðuneytisins um heimsmarkmiðin.
Einnig var kynning á stuðningi norrænu byggðastofnunarinnar, Nordregio, við innleiðingu heimsmarkmiðanna í norrænum sveitarfélögum. Þá kynnti Sveinn Margeirsson sveitarstjóri Skútustaðahrepps hvernig heimsmarkmiðin eru lögð til grundvallar í sameiningarvinnu hans sveitarfélags og Þingeyjarsveitar, undir heitinu: „Nýsköpun í norðri“.