Á fjölmennum fundi um loftslagsmál sveitarfélaga sem fram fór í dag afhenti Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga Sigrúnu Ágústsdóttur forstjóra Umhverfisstofnunnar Verkfærakistu loftslagsvænni sveitafélaga til rekstrar.
Eins og fram kom í máli Aldísar þá kviknaði hugmyndin að verkfærakistunni í kjölfar vinnustofu Samstarfsvettvangs sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmið í nóvember 2019. Á fundinum sögðu jafnframt þrjú sveitarfélög frá sinni vinnu að mótun loftslagsstefnu.
Tilgangur verkfærakistunnar er að efla og styðja sveitarfélög við að vinna aðgerðamiðaða stefnumótun í loftslagsmálum fyrir sinn rekstur, fylgja henni eftir og vakta árangur sinn. Samkvæmt núgildandi lögum um loftslagsmál þá er sveitarfélögum gert að vinna markmiðatengda loftslagsstefnu og á verkfærakistan að aðstoða sveitarfélög við þá vinnu. Á fundinum í morgun skráðu sig til þátttöku í verkefninu á annan tug sveitarfélaga og það er ljóst að mikill áhugi er meðal sveitarfélaga að leggja sitt lóð á vogaskálar baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.
Verkfærakistan er sniðin að fjölbreyttri starfsemi sveitarfélaga og skiptist í ytri vef og innri vef. Á ytri vefnum er að finna gagnlegt efni um loftslagsmál og leiðbeiningar um gerð loftslagsstefnu. Einnig er þar hugmyndabanki sem geymir tillögur að aðgerðum til að draga úr losun. Innri vefurinn er einungis aðgengilegur sveitarfélögum og þar geta sveitarfélög nálgast losunarreikni sem uppfyllir gildandi stuðla og viðmið þar sem sveitarfélög setja inn ákveðnar upplýsingar til að reikna sína losun, s.s. um akstur, orkunotkun, flug og úrgangsmagn. Þar er einnig skilagátt þar sem hægt er að skila ákveðnum gögnum til Umhverfisstofnunar og halda utan um þau gögn sem þegar hafa orðið til hjá sveitarfélaginu.
Verkfærakista Loftslagsvænni sveitarfélaga er fjármögnuð af Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu í tengslum við Aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum til 2030 og mótun hennar hefur staðið yfir undanfarið ár. Samband íslenskra sveitarfélaga bar ábyrgð á mótun hennar. Á þeim tíma hafa fjölmargir komið að verkefninu og hefur verkfærakistan verið unnin í góðu samstarfi við Umhverfisstofnun, umhverfis- og auðlindaráðuneytið og fjölmörg sveitarfélög. Fengnir voru til ráðgjafar sérfræðingar Environice og sérfræðingar Aranja unnu að því að gera efni verkfærakistunnar aðgengilegt með rafrænum hætti.
Í dag var einnig sett af stað könnun meðal sveitarfélaga á starfi þeirra að Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna. Könnunin er unnin í tengslum við Samstarfsvettvang sveitarfélaga um loftslagsmál og heimsmarkmiðin og mun gagnast í áframhaldandi vinnu að þróun mælikvarða fyrir Heimsmarkmið 12 og 13. Heimsmarkmið 12 varðar neyslu og úrgang og 13 fjallar um loftslagsmál. Könnunin er jafnframt gerð í ljósi þeirra breytinga sem framundan eru vegna nýlegra lagabreytinga í bæði loftslags- og úrgangsmálum:
- Í júní árið 2019 varð sveitarstjórnum gert skylt að móta og samþykkja loftslagsstefnu fyrir sinn rekstur samkvæmt breytingu á lögum nr. 70/2012 um loftslagsmál. Miðað er við að þeirri vinnu sé lokið í lok árs 2021.
- Í júní í ár tóku gildi lög nr. 103/2021 sem fela í sér innleiðingu Evróputilskipana sem er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis. Lögin eru viðamikil og leggja auknar skyldur á sveitarfélög um úrgangsstjórnun og meðhöndlun úrgangs sem flestar eiga að vera komnar til framkvæmda fyrir 1. janúar 2023.
Frestur til að svara könnuninni er til og með 1. október nk.