Verkfærakista um innleiðingu sveitarfélaga á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna var gefin út í dag, en henni er ætlað að vera þeim til leiðbeiningar um hvernig þau geta lagt sitt af mörkum til að vinna að heimsmarkmiðunum.
Verkfærakistan var unnin fyrir hönd verkefnastjórnar stjórnvalda um heimsmarkmiðin í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og samstarfssvettvang ríkis og sveitarfélaga um heimsmarkmiðin.
„Fyrir hönd sveitarfélaga vil ég þakka fyrir þessa verkfærakistu. Sveitarfélögin hafa áhuga á að leggja sitt af mörkum til að Ísland geti innleitt heimsmarkmiðin í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar landsins og til að vinna að sjálfbæru samfélagi og umhverfi í íslenskum sveitarfélögum. Innleiðing heimsmarkmiðanna er stórt og flókið verkefni. Þau innleiðingarverkfæri sem fylgdu þeim frá Sameinuðu þjóðunum, svo sem undirmarkmið og mælikvarðar, tóku mið af stöðu ríkja en ekki sveitarfélaga. Það þarf því að sníða innleiðingu þeirra á sveitarstjórnarstigi að veruleika sveitarfélaga og þessi verkfærakista er skref til þess.“
Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Verkfærakistan setur fram fimm skref sem er ætlað að leiðbeina sveitarfélögum við að vinna markvisst að innleiðingu heimsmarkmiðanna. Kistan byggist á erlendum fyrirmyndum auk dæma frá Íslandi. Listinn yfir aðgerðir við innleiðingu heimsmarkmiðanna í sveitarfélögum er ekki tæmandi, heldur er tilgangurinn að leggja til leiðir og gefa hugmyndir að hagnýtum aðferðum við að nálgast markmiðin, tengja við markmiðsetningu sveitarfélaga og efla um leið sjálfbæra þróun í daglegri starfsemi. Á næstunni verður einnig gefin út verkfærakista fyrir fyrirtæki.
„Við stöndum frammi fyrir gríðarlegu verkefni – sem er loftslagsváin. Heimsmarkmiðin eru leiðarvísir okkar í því verkefni – þau snúast um að tryggja þetta mikilvæga jafnvægi efnahags, samfélags og umhverfis. Þar getum við öll lagt okkar af mörkum og sveitarfélögin gegna þar lykilhlutverki. Við erum í kapphlaupi við tímann en ég trúi því að með samstilltu átaki getum við náð markmiðum okkar um sjálfbæra veröld.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra
„Heimsmarkmiðin eru sameiginlegur leiðarvísir ríkja í átt að sjálfbærri framtíð og þau eru leiðarljós Íslendinga í þróunarsamvinnu og öðru alþjóðastarfi. Það er hins vegar alveg ljóst að markmiðunum verður ekki náð án víðtækrar aðkomu bæði sveitarfélaga og atvinnulífsins.“
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Verkfærakistuna má nálgast á vef heimsmarkmiðanna, www.heimsmarkmidin.is/verkfaeri