Verkefnisstjórn um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa ýtt úr vör

Verkefnisstjórn um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hélt, þann 30. nóvember sl., sinn fyrsta fund undir forystu Guðveigar Eyglóardóttur frá Borgarbyggð.

Frá fyrsta fundi verkefnisstjórnar. Frá vinstri eru Guðveig Eyglóardóttir, Anna Guðrún Björnsdóttir, Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, Gauti Jóhannesson, Eva Marín Hlynsdóttir, Bjarki Hjörleifsson og Eva Hrund Einarsdóttir. Mynd af vef stjórnarráðsins.

Hópurinn er skipaður á grundvelli stefnu stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga 2019-2033. Verkefnisstjórninni er ætlað að greina starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og leggja til tillögur til úrbóta, m.a. í því skyni að draga úr mikilli nýliðun í sveitarstjórnum. 

Sex af hverjum tíu sveitarstjórnarmönnum voru nýliðar eftir tvennar síðustu sveitarstjórnarkosningar og eru horfur á því að hlutfallið verði svipað eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Verkefnisstjórnin stefnir að því að kynna tillögur sínar í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga næsta haust.

Með Guðveigu í verkefnisstjórninni eru:

  • Gauti Jóhannesson frá Múlaþingi,
  • Bjarki Hjörleifsson frá Stykkishólmi,
  • Eva Hrund Einarsdóttir frá Akureyri,
  • Heiða Björg Hilmisdóttir frá Reykjavík og
  • Einar Freyr Elínarson frá Mýrdalshreppi.

Með hópnum starfa Anna Gunnhildur Ólafsdóttir frá ráðuneytinu, Anna Guðrún Björnsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eva Marín Hlynsdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.

Velkomið er að senda verkefnisstjórninni ábendingar og hugmyndir í gegnum netfangið anna.g.olafsdottir@srn.is