Verkefnisstjórn um bættar starfsaðstæður kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum hélt, þann 30. nóvember sl., sinn fyrsta fund undir forystu Guðveigar Eyglóardóttur frá Borgarbyggð.
Hópurinn er skipaður á grundvelli stefnu stjórnvalda í málefnum sveitarfélaga 2019-2033. Verkefnisstjórninni er ætlað að greina starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og leggja til tillögur til úrbóta, m.a. í því skyni að draga úr mikilli nýliðun í sveitarstjórnum.
Sex af hverjum tíu sveitarstjórnarmönnum voru nýliðar eftir tvennar síðustu sveitarstjórnarkosningar og eru horfur á því að hlutfallið verði svipað eftir næstu sveitarstjórnarkosningar. Verkefnisstjórnin stefnir að því að kynna tillögur sínar í tengslum við landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga næsta haust.
Með Guðveigu í verkefnisstjórninni eru:
- Gauti Jóhannesson frá Múlaþingi,
- Bjarki Hjörleifsson frá Stykkishólmi,
- Eva Hrund Einarsdóttir frá Akureyri,
- Heiða Björg Hilmisdóttir frá Reykjavík og
- Einar Freyr Elínarson frá Mýrdalshreppi.
Með hópnum starfa Anna Gunnhildur Ólafsdóttir frá ráðuneytinu, Anna Guðrún Björnsdóttir frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Eva Marín Hlynsdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands.
Velkomið er að senda verkefnisstjórninni ábendingar og hugmyndir í gegnum netfangið anna.g.olafsdottir@srn.is.