Forseti Íslands, hr. Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaun Forvarnardagsins 12. desember sl. á Bessastöðum. Verðlaunahafar áttu þar góða stund með forseta og voru sóttvarnarreglur hafðar í hávegum og voru einungis vinningshafar og foreldrar þeirra viðstaddir.
Forvarnardagurinn er haldinn á hverju hausti og er beint sérstaklega að nemendum í 9. bekk og á 1. ári í framhaldsskólum. Markmið Forvarnardagsins er að vekja athygli á mikilvægum þáttum í forvarnarstarfi sem snúa að ungu fólki. Nemendum gefst einnig kostur á að taka þátt í leik og tóku um 360 nemendur þátt að þessu sinni. Þrír verðlaunahafar voru dregnir úr pottinum og hlutu þeir 50 þúsund króna inneign í versluninni 66°Norður, sem er hugsað sem hvatning til að vera vel búinn í heilsueflandi útivist.
Vinningshafar:
- Sigríður Birta Skarphéðinsdóttir, Grunnskóla Fjallabyggðar, Siglufirði
- Sóley Bestla Ýmisdóttir, Verzlunarskóla Íslands, Reykjavík
- Ásdís Bára Eðvaldsdóttir, Heiðarskóla, Reykjanesbæ
Forvarnardagurinn er haldinn að frumkvæði forseta Íslands. Aðrir samstarfsaðilar að Forvarnardeginum eru Embætti landlæknis, sem sér um verkefnisstjórn dagsins, Samband íslenskra sveitarfélaga, Reykjavíkurborg, Samfés, Heimili og skóli – landsamtök foreldra, Ungmennafélag Íslands, Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Skátar, Rannsóknir og greining og SAFF – Samstarf félagasamtaka í forvörnum.
Á heimasíðu Forvarnardagsins er meðal annars að finna fróðleik og myndbönd um forvarnir www.forvarnardagur.is