Atli Ingólfsson tónskáld hlaut fyrstu verðlaun í samkeppni um kórlag fyrir 80 ára afmæli lýðveldisins. Veitt voru 500.000 kr. verðlaun fyrir sigurlagið.
Samkeppnin er hluti af verkefninu Sungið með landinu en kórar hvaðanæva af landinu munu syngja valin lög á þjóðhátíðardaginn 17. júní og við ýmis tækifæri tengd afmælisárinu.
Alls bárust 63 lög í samkeppnina en auk Atla fengu þau Björgvin Þ. Valdimarsson, Guðný Einarsdóttir, Sigurður Flosason, Sigurður Rúnar Jónsson og Þorvaldur Örn Davíðsson sérstaka viðurkenningu fyrir sín lög.
Nefnd um 80 ára afmæli lýðveldisins stóð fyrir samkeppninni í samvinnu við samtök íslenskra kóra og kórstjóra. Í samkeppnisreglum kom fram að lagið skyldi vera auðsungið og henta bæði til kórsöngs og almenns söngs en texti lagsins er Ávarp fjallkonunnar eftir Þórarin Eldjárn. Dómnefnd var skipuð fulltrúum frá Tónskáldafélagi Íslands, Félagi tónskálda og textahöfunda, Félagi íslenskra kórstjóra auk fulltrúa afmælisnefndar en formaður dómnefndar var Hildigunnur Rúnarsdóttir tónskáld.
80 ára afmælis lýðveldisins verður fagnað á árinu með hátíðardagskrá og fjölmörgum viðburðum um land allt. Yfirlit yfir viðburði má sjá á vef afmælisársins, lýðveldi.is