Vel sóttur fundur um sameiningar sveitarfélaga

Upptökur frá stafrænu málþingi um sameiningar sveitarfélaga, sem fram fór í morgun, eru nú aðgengilegar á vef sambandsins.

Frá Djúpavogi en Djúpavogshreppur var eitt fjögurra sveitarfélaga sem sameinuðust í Múlaþing árið 2020.

Yfir 110 manns tóku þátt í málþinginu sem hófst á ávarpi Aldísar Hafsteinsdóttur, formanns Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem fagnaði því að þetta málþing væri haldið með þessu hætti, þó svo að hún saknaði þess verulega að hitta sveitarstjórnarfólk í raunheimum.

Róbert Ragnarsson ráðgjafi frá RR ráðgjöf og fyrrum bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga og Grindavíkurbæjar, fór yfir það hvað þarf að hafa í huga þegar kemur að sameiningarviðræðum en hann er einn af þeim ráðgjöfum sem hafa sérhæft sig hvað mest þegar kemur að sameiningum sveitarfélaga.

Kosið um sameiningu í þremur landshlutum

Helgi Héðinsson, oddviti Skútustaðahrepps, kynnti sameiningarverkefnið Þingeying en það eru sameiningarviðræður Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar en kosið verður um þær 5. júní nk.

Því næst kynnti Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps, sameiningarviðræður á Suðurlandi þar sem sveitarfélögin Skaftárhreppur, Mýrdalshreppur, Flóahreppur, Rangárþing eystra og Rangárþing ytra eru í viðræðum. Kosið verður um þá sameiningu 25. september 2021.

Að lokum kynnti Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri Blönduósbæjar sameiningarverkefnið í Austur Húnavatnssýslum sem kallast Húnvetningur. Þar eru sveitarfélögin Blönduósbær, Húnavatnshreppur, Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd í sameiningarviðræðum en kosið verður um sameiningartillöguna 5. júní nk.

Góðar umræðar voru í lokin sem fundarstjórinn Karl Björnsson, framkvæmdastjóri sambandsins, hélt vel utan um.

Ef allar þær sameiningarviðræður sem kynntar voru á fundinum verða að veruleika mun sveitarfélögum fækka um átta við næstu sveitarstjórnarkosningar sem fara fram árið 2022.

Upptökur frá málþinginu.